Fögnum með nýstúdentum og flöggum

Þann 19. maí er fyrirhuguð útskrift í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Þetta er því hátíðisdagur hjá stúdentum og fjölskyldum þeirra og í bæinn koma aðstandendur og gestir þeirra sem búsettir eru utan sveitarfélagsins.

Á þessum degi minnast eldri nemendur einnig veru sinnar í skólanum. Skólar hvers sveitarfélags eru þeirra mikilvægustu stofnanir. Menntaskólinn einnig, enda árin sem menn eru þar einna mestu mótunarár hvers einstaklings. Við lok skólagöngu í menntaskóla verða einnig oftast ákveðin skil í lífinu, menn eru orðnir fullorðnir og halda af stað út í lífið sem sjálfstæðir einstaklingar.

Útskrift úr Menntaskólanum á Egilsstöðum er því tilefni sem vert er að gefa gaum og vekja athygli á með áberandi hætti.

Það er skemmtileg venja, sem þarf að efla og festa í sessi, að bæjarbúar flaggi á útskriftardeginum og séu búnir að fara í mestu vorhreingerninguna á lóðum sínum og nærsvæði fyrir þennan dag.

Setjum hátíðasvip á bæinn og fögnum með stúdentunum og þeirra fólki.