Flugslysaáætlun undirrituð á æfingunni

Um síðustu helgi var haldin flugslysaæfing á Egilsstaðaflugvelli. Æfð voru viðbrögð þegar flugvél með um 50 farþega hlekkist á í lendingu við norðurenda flugbrautarinnar á flugvellinum. Á sama tíma var undirrituð Flugslysaáætlun Egilsstaða.

Undirbúningur æfingarinnar, sem var í höndum heimamanna, hófst s.l. fimmtudag með fræðslu og ýmsum viðbúnaði þeirra viðbragðsaðila, sem koma að æfingunni. Í æfingunni tóku þátt lögreglan, slökkvilið, björgunarsveitir, Rauði krossinn, starfsmenn flugfélags á flugvellinum, Flugstoðir, meðlimir í svæðisstjórn björgunarsveita og starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Austurlands eða alls um 200 manns. Auk þess tóku starfsmenn Landspítala og almannavarnadeildar  þátt í undirbúningi. Þá var  Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð virkjuð og aðstoðaði á vettvangi.

Á laugardaginn var undirrituð Flugslysaáætlun Egilsstaða af þeim Haraldi Johannessen, ríkislögreglustjóra, Lárusi Bjarnasyni, lögreglustjóranum á Seyðisfirði, Eiríki Björgvinssyni f.h. almannavarnanefndarinnar og Ársæli Þorsteinssyni frá Flugstoðum. Áætlunin er unnin í samvinnu við heimamenn af Flugstoðum ohf., almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og almannavarnanefnd Fljótsdalshéraðs og Borgarfjarðar eystri. Flugslysaáætlunin er til leiðbeiningar og skal tryggja skipulögð og samhæfð viðbrögð, fjarskipti og boðanir við flugslys á eða við flugvöllinn og jafnfram sjá til að þolendum flugslyss berist öll nauðsynleg aðstoð á sem skemmstum tíma. Með flugslysaæfingunni var verið að prófa áreiðanleika áætlunarinnar.