Fljótsdalshérað tryggir fjármagn í byggingu nýs grunnskóla

Íslandsbanki og Fljótsdalshérað hafa gert með sér samning um fjármögnun á ný- og endurbyggingu við Grunnskólann á Egilsstöðum. Verkefnið er eitt það stærsta sem sveitarfélagið hefur ráðist í en gert er ráð fyrir að nýja byggingin verði rúmir fjögur þúsund fermetrar.

Þá mun jafnframt verða unnið að endurbótum á eldri hluta skólans samhliða nýbyggingunni. Verkið hófst vorið 2008 og áætlað er að því ljúki endanlega á árinu 2010 en þá mun skólinn hafa á að skipa glæsilegri aðstöðu með heildarrými upp á  tæplega sjö þúsund fermetra.

„Við erum afar ánægð með að ráðast í þennan áfanga á ný- og endurbyggingu við grunnskólann, í samstarfi við Eignarhaldsfélgið Fasteign og með fulltingi Íslandsbanka”, segir Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs. „Það er mjög mikilvægt fyrir atvinnulífið hér að sveitafélagið standi fyrir framkvæmdum nú á samdráttartímum eins og mál standa í dag. Þetta er viðamikið verkefni og verður skólinn og öll aðstaða fyrir starfsfólk og nemendur til mikillar fyrirmyndar að verkinu loknu. Þetta er einn megin þáttur í þeirri framtíðarsýn Fljótsdalshéraðs að  skapa gott samfélag á traustum grunni.”

„Íslandsbanki setti á fót útibú á Fljótsdalshéraði árið 2005 og hefur tekið þátt í því blómlega starfi sem þar hefur verið byggt upp”, sagði Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka. ,,Atvinnuuppbygging hefur sjaldan skipt eins miklu máli og nú og er það sérlega ánægjulegt fyrir Íslandsbanka að geta tryggt þessu verkefni farsælan framgang með fjármögnun.”

“Samningurinn við Fljótsdalshérað er gríðarlega mikilvægur fyrir útibú Íslandsbanka á Egilsstöðum” sagði Páll Björgvin Guðmundsson útibússtjóri Íslandsbanka. Með  þessum samningi bætist sveitafélagið í hóp í góðra viðskiptavina útibúsins.”