- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Fram hefur verið lagt á Alþingi frumvarp til laga um ráðstöfun andvirðis vatnsréttinda kristfjárjarðanna Merkis og Arnarhóls. Samtals er um að ræða um 20 milljónir króna.
Markmið frumvarpsins er að heimila sveitarstjórn Fljótsdalshéraðs að ráðstafa andvirði vatnsréttinda kristfjárjarðanna Merkis og Arnarhóls í Jökuldal til félagslegra framkvæmda í sveitarfélaginu. Á fundi bæjarstjórnar þann 7. maí var framkomnu frumvarpi fagnað og mælt var með því að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt.
Samkvæmt úrskurði matsnefndar um verðmæti vatnsréttinda sem nýtt verða við Kárahnjúkavirkjun nema samanlagðar bætur vegna vatnsréttinda jarðanna Merkis og Arnarhóls í Jökuldal í Fljótsdalshéraði um 19,7 millj. kr. Landbúnaðarráðuneytið tók við greiðslu bótanna með heimild í fjáraukalögum 2007 og fjallar frumvarpið um ráðstöfun þeirra. Að viðbættum vöxtum frá uppkvaðningardegi til greiðsludags nemur fjárhæð bótanna um 20,3 millj. kr.
Jörðin Merki er byggð úr landi Arnheiðarstaða í Fljótsdalshreppi sem hefur verið talin kristfjárjörð svo langt aftur sem skriflegar heimildir ná og má hér vísa til máldaga frá árinu 1367 (Fornbréfasafn III, bls. 240). Gjafabréf jarðarinnar er hins vegar glatað. Jörðin Arnarhóll er nýbýli sem byggt var úr landi Merkis árið 1960 en er nú í eyði. Af þessum sökum eru bæði Merki og Arnarhóll einnig kristfjárjarðir.
Kristfjárjarðir eru sjálfseignarstofnanir eða ígildi þeirra sem gefnar voru í því skyni að
fátæklingar mættu njóta afgjalds þeirra. Í greinargerð félagsmálaráðuneytisins um kristfjárjarðir frá 1952 segir að samkvæmt sögn fróðra manna séu Arnheiðarstaðir gefnir sem kristfjárjörð með þeirri kvöð að á eftir gjaldi heimajarðarinnar skuli framfleytt svonefndum hundraðsómaga og eftirgjaldið metið 1 hundrað á landsvísu.
Upphaflega voru kristfjárjarðir í umsjá kirkjunnar en frá því á 19. öld hafa kirkjuleg yfirvöld almennt haft lítil afskipti af þeim. Kirkjumálaráðuneytið, síðar landbúnaðarráðuneytið og loks sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hafa frá um 1940 haft forræði á Merki og síðar Arnarhól.