Fljótsdalshérað opnar íbúagátt

Íbúagátt Fljótsdalshéraðs var opnuð í dag, miðvikudaginn 21. apríl. Með íbúagáttinni gefst íbúum sveitarfélagsins, með rafrænum og persónulegum hætti, kostur á að sækja um þjónustu til sveitarfélagsins, fylgjast með framgangi sinna mála, skoða greiðslustöðu sína, koma ábendingum á framfæri og ýmislegt fleira. Íbúagáttin er vefþjónusta, sem svipar að mörgu leyti til þjónustu heimabanka. Hún er opin öllum íbúum Fljótsdalshéraðs, sem og öðrum, sem náð hafa 18 ára aldri. Íbúagáttin byggist á One systems skjala- og málakerfi sem Fljótsdalshérað tók í notkun fyrir nokkrum misserum.

Íbúagáttinni er ætlað að auðvelda íbúum Fljótsdalshéraðs að sækja um þjónustu á vegum sveitarfélagsins, svo sem leikskólapláss, mötuneyti grunnskólanna, félagsþjónustu, byggingarleyfi og fleira. Einnig er hægt að fylgjast með greiðslustöðu sinni hjá sveitarfélaginu. En þegar íbúagáttin er tekin í notkun er hægt að nálgast þar þrettán umsóknir (sjá hér neðar). Það þýðir að til að byrja með verða ekki allar umsóknir til sveitarfélagsins aðgengilegar íbúagáttinni. Hins vegar er gert ráð fyrir að umsóknarformum fjölgi þar smátt og smátt. Eftir sem áður verður áfram hægt að nálgast umsóknareyðublöð sem pdf-skjöl á heimasíðu sveitarfélagsins á vefsíðunni Umsóknir.

Umsóknir um eftirfarandi þjónustu er hægt að nálgast með rafrænum hætti í íbúagáttinni:

Grunnskólar:
Þú getur sótt um skólavist, mötuneyti og eða ávaxtabita fyrir nemendur, heilsdagsvistun, námsvist utan sveitarfélags og námsvist utan skólahverfis í gegnum íbúagáttina.

Leikskólar:
Þú getur sótt um leikskólavist í gegn um íbúagáttina.

Umsóknir um félagsþjónustu:
Þú getur sótt um húsaleigubætur, félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur í gegnum íbúagáttina.

Framkvæmdir og skipulag:
Þú getur sótt um byggingarleyfi og graftrarleyfi utan lóðar eða sent fyrirspurn um skipulags- eða byggingarmál í gegnum íbúagáttina.

Vinnuskólinn:
Þú getur sótt um starf hjá vinnuskólanum í gegnum íbúagáttina. Foreldrar verða að sækja um fyrir börn yngri en 18 ára. Umsóknarfrestur fyrir nemendur í vinnuskólann er til 7. maí að þessu sinni. Eingöngu er sótt um í íbúagáttinni.

Mentor:
Foreldrar og forráðamenn barna á skólaaldri komast inn í Mentor beint í gegn um íbúagáttina.

Greiðsluseðlar:
Íbúar sveitarfélagsins munu í íbúagáttinni geta séð og fylgst með greiðslustöðu sinni gagnvart sveitarfélaginu. Til að byrja með verða greiðsluseðlar (reikningar) fyrir fasteignagjöld, húsaleigu, leikskólavist, mötuneyti og eða ávaxtabita í grunnskólum og heilsdagsvistun í grunnskólum (í þeim skólum þar sem það á við) birtir í íbúagáttinni. Þar með verður hætt að senda greiðsluseðla fyrir þessa þjónustu heim til íbúanna á pappírsformi. Þannig munu t.d. greiðsluseðlar (reikningar) fasteignagjalda ekki berast einstaklingum, sem eru eigendur fasteigna og eru yngri en 67 ára, heim um næstu mánaðamót. Til að sjá þá verður að fara í íbúagáttina. Þeir sem ekki hafa aðgang að netinu eða vilja af öðrum ástæðum fá greiðsluseðlana senda heim til sín á pappír (eins og áður), verða að óska eftir því sérstaklega. Það er hægt að gera í íbúagáttinni sjálfri eða með því að hringja í afgreiðslufulltrúa sveitarfélagsins að Lyngási 12, í síma 4 700 700.

Fyrirtæki og þeir sem eru 67 ára og eldri (þ.e. fæddir 1943 og fyrr) munu hins vegar áfram fá greiðsluseðla fasteignagjalda senda heim. Þessi hópur getur fengið þá í íbúagáttina í stað þess að fá þá heimsenda, óski menn þess. Það er hægt að gera í íbúagáttinni sjálfri eða með því að hringja í afgreiðslufulltrúa sveitarfélagsins að Lyngási 12, í síma 4 700 700.

Greiðslur reikninga fara hins vegar fram, eins og áður, í gegnum greiðsluþjónustur bankanna eða heimabanka.

Annað:
Þú getur fylgst með nýjustu fréttum frá sveitarfélaginu, fylgst með fundargerðum að eigin vali og  stillt inn þína tengla t.d. fyrir stofnanir sveitarfélagsins í íbúagáttinni.

ÍBÚAGÁTT – HVERNIG?
Þegar um er að ræða skráningu í íbúagáttina í fyrsta sinn og notkun á henni má styðjast við leiðbeiningarnar hér að neðan. Á það skal einnig bent að afgreiðslufulltrúar Fljótsdalshéraðs eru einnig boðnir og búnir til að hjálpa, annað hvort í gegn um síma 4 700 700 eða á skrifstofu sveitarfélagsins að Lyngási 12.

Þú ferð á heimasíðu Fljótsdalshéraðs www.fljotsdalsherad.is og velur hnappinn „Íbúagátt”, sem finna má neðst til vinstri á forsíðu heimasíðu sveitarfélagsins.

Nýskráning:
Á forsíðu íbúagáttarinnar ferð þú á svæðið „Nýskráning” og skrifar kennitölu þína og smellir á „Áfram”. Æskilegt er að þú skráir netfang, farsíma og heimasíma. Hægt er að velja á milli þess að fá lykilorð sent í heimbanka eða að sækja það á skrifstofu Fljótsdalshéraðs að Lyngási 12. Að lokum smellir þú á „Senda”.

Lykilorð sótt í heimabanka:
Þú skráir þig inn í heimbanka þinn og ferð í „Yfirlit/rafræn skjöl” eða „Yfirlit/vefskjöl”. Þar finnur þú skjal sem heitir „Lykilorð frá Fljótsdalshéraði”. Skjalið inniheldur notendanafn og lykilorð sem veitir þér aðgang að íbúagáttinni.

Lykilorð sótt á skrifstofu Fljótsdalshéraðs:
Þú kemur á skrifstofu Fljótsdalshéraðs að Lyngási 12 á Egilsstöðum og sækir lykilorðið. Þú verður að framvísa persónuskilríkjum um leið. Skrifstofan er opin alla virka daga frá kl. 9.00-15.00. Símanúmer Fljótsdalshéraðs er 4 700 700.

Innskráning:
Þegar þú hefur fengið notendanafn og lykilorð opnar þú íbúagáttina að nýju, annað hvort í gegn um www.fljotsdalsherad.is eða https://ibuagatt.fljotsdalsherad.is og skráir þig inn á svæðinu „Innskráning”.

Sótt um þjónustu:
Þegar innskráningu er lokið getur þú sótt um þá þjónustu sem óskað er eftir undir flipanum „Umsóknir”. Þú getur svo fylgst með ferli umsókna þinna undir flipanum „Málin mín”, vinstra megin á síðunni.

Hjálpumst að
Eigir þú í erfiðleikum með skráningu á íbúagáttina eða notkun hennar hikaðu ekki við að hafa samband. Starfsfólk á skrifstofu Fljótsdalshéraðs veitir alla aðstoð á staðnum, Lyngási 12, eða í síma 4 700 700.