Fljótsdalshérað og Höttur endurnýja samning

Í hádeginu var undirritaður samningur Fljótsdalshéraðs og Rekstrarfélags Hattar um rekstur og viðhald á vallarsvæðum í eigu Fljótsdalshéraðs. Samingurinn gildir frá 1. janúar 2012 til 31. desember 2012.

Samkvæmt samningnum á Höttur rekstrarfélag að sjá um hirðingu og umsjón Fellavallar og Vilhjálmsvallar ásamt annarri aðstöðu svo sem búningsklefum,   nærsvæðum og bílastæðum. Í þessu felst að svæðin eiga ávallt að vera tilbúin fyrir þá notkun sem þar fer fram, svo sem æfingar og keppnir í knattspyrnu og frjálsum íþróttum.
Í samningum er einnig tekið til að það sé ósk Fljótsdalshéraðs að í tengslum við hátíðir á vegum þess, svo sem 17. júní, Ormsteiti og Daga myrkurs, leggi Höttur rekstarfélag sig fram um að vera sýnilegt með skemmtilegum uppákomum, íþróttaviðburðum eða sýningum.

Á myndinni frá undirskriftinni má sjá Óttar Ármannsson, formann rekstarfélags Hattar, og Björn Ingimarsson bæjarsstjóra ásamt Páli Sigvaldasyni, formanni menningar- og íþróttanefndar, og Hreini Halldórssyni forstöðumanni íþróttamannvirkja.