Fljótsdalshérað og Höttur endurnýja samning

Fljótsdalshérað og Höttur rekstrarfélag endurnýjuðu samning um rekstur og viðhald vallarsvæða í eigu Fljótsdalshéraðs í síðustu viku. Samningurinn er framlengdur um tvö ár og í viðbót við þá velli sem voru inn í fyrri samningi, þ.e.a.s. Vilhjálmsvöll, Selskóg og Eiðavöll, bætist Fellavöllur við í samninginn nú.

Samkvæmt samningnum á Höttur rekstrarfélag að sjá um hirðingu og umsjón Vilhjálmsvallar og Fellavallar ásamt nærsvæðum og bílastæðum.  Í þessu felst að svæðin eiga ávallt að vera tilbúin fyrir þá notkun sem þar fer fram, s.s. æfingar og keppnir í knattspyrnu og frjálsum íþróttum.  Einnig kveður samningurinn á um umhirðu  íþróttaaðstöðunnar í Selskógi og íþróttavallar UÍA á Eiðum. Höttur rekstrarfélag hefur einnig umsjón með búningsaðstöðunum við Vilhjálmsvöll og Fellavöll.