- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Heimasíðan og vefumsjónarkerfið sem lögð var af við sama tækifæri er komin til ára sinna enda rúmlega sex ár síðan hún var tekin í notkun. Ný heimasíða er liður í aukinni áherslu á rafrænan þátt stjórnsýslunnar og þjónustu sveitarfélagsins með þeim hætti. Að gerð heimasíðunnar hafa komið fyrirtækin HugurAx, undir verkefnisstjórn Tjörva Hrafnkelssonar, sem séð hefur um vefsmíðina og Fíton sem hannaði útlit hennar. Umsjón með gerð texta var í höndum Sigurbjargar Hvannar Kristjánssdóttur og umsjón með myndaefni hafði Alma J. Árnadóttir. Margir aðrir hafa lagt hönd á plóginn við gerð heimasíðunnar og þá fyrst og fremst starfsfólk sveitarfélagsins.
Hin nýja heimasíða byggist upp á þremur gáttum. Á bak við þá fyrstu, Íbúar og samfélag, eru ýmsar upplýsingar fyrst og fremst um þjónustu og stofnanir sveitarfélagsins, settar fram með þeim hætti að þær geti verið íbúum og öðrum sem gagnlegastar á sem einfaldastan hátt. Önnur gáttin, Gestir og gangandi, er miðuð að þörfum ferðamannsins og gestsins sem hyggur á skamma dvöl í sveitarfélaginu. Þriðja gáttin, Stjórnsýslan og Fljótsdalshérað, tenigst hinni formlegri hlið stjórnsýslunnar þar sem nálgast má t.d. upplýsingar um skipulag hennar, sækja sér reglur, umsóknir, gjaldskrár og fundargerðir nefnda auk þess sem hægt er að vera í sambandi við starfsfólk og kjörna fulltrúa.
Á forsíðu heimasíðunnar hefur verið lögð áhersla á greiða leið að þeim atriðum sem notendur sækja hvað helst á heimasíður sveitarfélaga. Þar eru t.d. flýtileiðir stofnanir sveitarfélagsins, umsóknareyðublöð, fundargerðir og viðburðadagatal. Á forsíðunni er einnig hægt að skrá sig á póstlista og þannig fá nýjustu fréttir á síðunni sendar til sín í tölvupósti. Þá er þar hnappur sem gefur notendum færi á að senda deildastjórum eða bæjarstjóra sveitarfélagsins fyrirspurn eða ábendingu. Nýjasta fréttin birtist á miðri síðunni og eldri fréttir þar við hliðina.
Þar sem enn er unnið að innsetningu efnis á heimasíðuna og smávægilegum lagfæringum og breytingum sem þurft hefur að gera eftir að heimasíðan var opnuð, vantar enn upp á að allar undirsíður séu fullgerðar og virkni orðin eðlileg. Eru lesendur heimasíðunnar beðnir um að sýna biðlund meðan verið er að ljúka þessum verki.
Slóð heimasíðunnar er www.fljotsdalsherad.is