Fljótsdalshérað hefur fengið jafnlaunavottun

Þann 12.ágúst sl. gaf Jafnréttisstofa út heimild til handa Fljótsdalshéraði til að nota jafnlaunamerkið sem þau fyrirtæki og stofnanir mega gera sem fengið hafa jafnlaunavottun hjá þar til bærum aðilum. 

Þetta er endapunktur á löngu ferli sem sveitarfélagið hefur farið í gegnum sem launagreiðandi. Fyrst var gerð svokölluð jafnlaunaúttekt sem unnin var undir leiðsögn og með aðstoð fyrirtækisins PwC og var það fyrrum Djúpavogsbúinn Þorkell Guðmundsson sem annaðist þann verkþátt, auk starfsmanna launadeildar og skjalastjóra og skrifstofustjóra. Að því búnu var samið við fyrirtækið BSI á Íslandi um að framkvæma sjálfa vottunina, en það fyrirtæki er einn þriggja aðila á landinu sem hafa leyfi til að framkvæma slíkar vottanir.

Í byrjun ágúst gaf BSI síðan út jafnlaunavottun fyrir Fljótsdalshérað og í framhaldi af því fékk sveitarfélagið heimild til að nota jafnlaunamerkið, samkvæmt reglum þar um.

Þó umrædd vottun sé fengin þarf sveitarfélagið áfram að framkvæma ákveðnar kannanir og úttektir til að fylgjast með að launamunur kynjanna haldist innan vikmarka.

Fljótsdalshérað lýsir ánægju sinni með þessa niðurstöðu og þakkar þeim starfsmönnum og samstarfsaðilum sem að verkinu komu fyrir þeirra vinnu.