Fljótsdalshérað eignast aðalskipulag

Aðalskipulag Fljótsdalshéraðs var staðfest þann 21. desember, síðast liðinn, þegar Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, undirritaði skipulagið. Þetta er fyrsta aðalskipulag sveitarfélagsins eftir að það varð til við sameiningu Austur-Héraðs, Fellahrepps og Norður-Héraðs, árið 2004. En vinna við skipulagsgerðina hófst formlega vorið 2007. Aðalskipulagið er byggt á góðri samvinnu við íbúa, því þar er mótuð stefna fyrir samfélag þeirra, byggð á sérstöðu og auðlindum sveitarfélagsins. Grunnur að samvinnu við íbúa var lagður á Héraðsþingi 2005, en þar var framtíð sveitarfélagsins rædd.

Skipaður var sérstakur stýrihópur til að annast mótun skipulagsins og sátu í honum Árni Kristinsson, formaður, Baldur Pálsson, Magnús Jónasson, Eyþór Elíasson og Gylfi Hallbjörnsson, ásamt þremur fulltrúum úr bæjarráði, Jónínu Rós Guðmundsdóttur, Guðmundi Ólafssyni og Birni Ármanni Ólafssyni. Fundi stýrihóps sátu einnig Eiríkur Bj. Björgvinsson, bæjarstjóri, Ómar Þröstur Björgólfsson, skipulags- og byggingarfulltrúi og Skarphéðinn Smári Þórhallsson, héraðs- og umhverfisfulltrúi. En það var ráðgjafarfyrirtækið Alta ehf sem vann aðalskipulagið fyrir sveitarfélagið. Samvinna við íbúa var með ýmsum hætti, aðallega á fundum víðs vegar um sveitarfélagið þar sem aflað var hugmynda og sjónarmiða og tillögur kynntar. Þá var aflað upplýsinga um framtíðaráform landeigenda með sérstakri könnun, dreifibréf sent og haldið málþing um sérstöðu og framtíðarþróun í sveitarfélaginu. Allt myndaði þetta góðan efnivið í skipulagið.

Meðan á aðalskipulagsferlinu stóð var ákveðið að móta atvinnustefnu auk þess sem meginstefna sveitarfélagsins var endurskoðuð og þá bætt við fjórðu stoðinni í stefnuna. En stefna Fljótsdalshéraðs saman stendur af fjórum stoðum, þekkingu, þjónustu, velferð og umhverfi. Þá var ákveðið að stefnan væri jafnframt Staðardagskrá 21 fyrir sveitarfélagið. Stefna Fljótadalshérðas ásamt þessum nýju stefnuþáttum reyndust mikilvægur grunnur fyrir aðalskipulagið.

Eins og gefur að skilja voru ólík sjónarmið um ýmsa þætti skipulagsins, t.d. um þróun byggðar og legu vega. Nýja skipulagið felur í sér töluverða breytingu frá því gamla, t.d. með áherslu á ný byggingarsvæði norðan núverandi byggðar á Egilsstöðum, lengingu flugbrautar, nýju brúarstæði yfir Lagarfljótið og vegi um Melshorn. Meðal áhersluatriða má nefna verndun landbúnaðarlands.

Í október 2008 var haldin sýning á þeim drögum sem þá lágu fyrir og bárust all margar gagnlegar ábendingar frá íbúum og hagsmunaaðilum. Tillagan var síðan samþykkt til auglýsingar í nóvember 2008. Aftur bárust ábendingar og athugasemdir sem fjallað var um vorið 2009 og skipulagstillagan síðan samþykkt í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs þann 24. júní 2009.

Aðalskipulagsuppdrætti ásamt greinargerð með skipulaginu má finna á heimasíðu sveitarfélagsins, eða hér.