Fleiri fá leikskólapláss í haust

Á fundi fræðslunefndar Fljótsdalshéraðs, 22. júní s.l., var lagt til að allt að 16 börn úr elsta árgangi í leikskólanum Skógarlandi verði flutt yfir á leikskólann Tjarnarland, þar sem húsrými er fyrir hendi. En með þessu móti er hægt að bjóða öllum börnum á umsóknarlista eins og hann lítur út nú, sem náð hafa eins árs aldri 1. september í haust, leikskólavist í leikskólum sveitarfélagsins. Það verða því um 60 ný börn á aldrinum eins til fimm ára sem hefja leikskólagöngu sína í haust.

Á fundi bæjarráðs þann 23. júní var tillaga fræðslunefndar samþykkt. Á fundinum kom fram að kostnaður við þessa tilhögun er metinn á 3,5 milljónir króna sem eftir lifir árs 2010. Í bókun bæjarráðs kemur fram að unnið verði að því að finna fjármuni innan rekstrar sveitarfélagsins til að mæta þessum útgjöldum en til tryggingar þeim stendur nýtilkominn söluhagnaður af eignum sveitarfélagsins, sem ekki var gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins 2010.