Fjórtán ljóð og vísur á veggi og í glugga

Nú er nýlokið uppsetningu á fjórtán ljóðum og vísum á veggi eða glugga á nokkrum fjölförnum stöðum á Egilsstöðum og í Fellabæ. Að þessu sinni var ákveðið að þemað yrði árstíðirnar og var leitað til fjórtán einstaklinga á Héraði sem allir hafa fengist við ljóða- eða vísnagerð.

Nokkur hefð er komin á þetta skemmtilega verkefni sem vakið hefur töluverða athygli. Árið 2008 voru það nokkur ástarljóð Páls Ólafssonar og árið 2010 úrvalsljóð Hákons Aðalsteinssonar sem voru birt með þessu hætti. Í fyrra var leitað til elstu nemenda leikskóla og nemenda 4. bekkjar grunnskóla af öllu Héraði, sem sömdu krummaljóð í þessu tilefni.

Á síðasta ári var tekin ákvörðun um að ný ljóð eða vísur skyldu valin árlega og birt með þessum hætti, gestum og gangandi til ánægju. Verkefnið gengur undir heitinu „Ljóð á vegg“ og hefur sérstaka verkefnisstjórn sem leggur línurnar fyrir hvert ár, s.s. að móta áherslur og þema verkefnisins og velja ljóð eða vísur til birtingar hverju sinni eða ákveða með hvaða hætti þau verða valin.

Skáldin sem eiga ljóð eða vísur að þessu sinni er fjölbreytilegur hópur. Sum hafa ort lengi og birt ljóð sín eða kvæði í bókum, tímaritum eða við annars konar tækifæri, en önnur eru að hefja sinn skáldskaparferil. Yngsta skáldið er innan við tvítugt en það elsta um nírætt. Form og efnistök eru því jafnframt af ólíkum toga. Skáldin eru: Arnar Sigbjörnsson, Hallveig Guðjónsdóttir, Ingunn Snædal, Lubbi klettaskáld, Sigrún Björgvinsdóttir, Sigurður Ingólfsson, Sólveig Björnsdóttir, Stefán Bragason, Stefán Bogi Sveinsson, Steinunn Ásmundsdóttir, Steinunn Friðriksdóttir, Sunna Ross, Sveinn Snorri Sveinsson og Þorsteinn Bergsson.

Um uppsetningu á kveðskapnum sá fyrirtækið Bara snilld ehf.