Fjör á Héraðsmóti

Föstudaginn 16. maí var svokallað Héraðsmót haldið í fimmta sinn. Um er að ræða samstarfsverkefni grunnskólanna fjögurra á Héraði, þar sem allir nemendur skólanna á sama aldri koma saman og taka þátt í skipulagðri dagskrá, þar sem leikir og þrautir eru uppistaðan. Aðalmarkmiðið með Héraðsmótinu er að hrista saman nemendur og starfsfólk skólanna. Einnig að reyna á samvinnu nemenda með því að raða þeim saman í hópa þvert á skóla.
Að þessu sinni var umhverfi og útivist í brennidepli og fór dagskráin eingöngu fram utan þéttbýlisins. Þannig voru nemendur í 1.- 4. bekk á Eiðum, 5.-7. bekk í Brúarási og nemendur í 8.-10. bekk fóru inn á Hallormsstað.