Fjölmennt á Ormsteiti í blíðu veðri

Héraðshátíðin Ormsteiti, sem fram fer um allt Fljótsdalshérað, hófst á föstudaginn og stendur fram á næsta sunnudag með viðamikilli dagskrá. Dagskrá helgarinnar tókst vel. Þátttaka var alls staðar góð og veður var hið besta alla helgina.

Fjölmenni var við setningarhátíðina á Vilhjálmsvelli þar sem skrautlegir karnivalbúningar settu svip sinn á kvöldið. Á laugardaginn var Möðrudalsgleði sem endaði með tónleikum KK. í Sláturhúsinu voru opnaðar tvennar sýningar og safnanótt var í Safnahúsinu. Á sunnudeginum fór dagskráin að mestu fram í Hallormsstaðaskógi með árlegri göngu Ferðafélags Fljótsdalshéraðs. Þá skemmtu þær Skoppa og Skrítla börnunum í Atlavík en þar var einnig spennandi ratleikur og keppni í plöntugreiningu. Þó hélt hljómsveitin Mannakorn tónleika í Mörkinni í sól og sumaryl.

Dagurinn í dag, mánudagur, hófst kl. 13.00 með markaðsdegi krakka í Bragganum. Gæludýrasamkeppnin hófst svo klukkan 15.00, þar sem keppt er í kattaflokki, hundaflokki, flokki fiðurfénaðar, blönduðum flokki og frumlegasta gæludýrið hlýtur sérstök verðlaun. Dýratemjarinn Zorba mætir á svæðið og kennir krökkum að temja gæludýrin sín. Í kvöld kl. 20.00  býður svo Leikfélag Fljótsdalshéraðs öllum ókeypis í Braggann á leikrit Sigurðar Ingólfssonar; Elvis – leiðin heim, sem sýnt var í vor við miklar vinsældir.

Nánari upplýsingar um dagskrá Ormsteitis næstu daga má sjá á vefnum www.ormsteiti.is