Fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni

Mynd: ruv/Rúnar Snær Reynisson https://www.ruv.is/frett/2020/05/29/ollum-adstodarmonnum-tollvarda-sa…
Mynd: ruv/Rúnar Snær Reynisson https://www.ruv.is/frett/2020/05/29/ollum-adstodarmonnum-tollvarda-sagt-upp-a-seydisfirdi

Á fundi bæjarráðs Fljótsdalshéraðs þann 6. júlí sl. var tekið fyrir erindi frá byggðaráði Skagafjarðar vegna opinbera starfa á landsbyggðinni og eftirfarandi bókun gerð:

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs tekur undir bókun byggðaráðs sveitarfélagsins Skagafjarðar, þar sem fjölgun opinberra starfa hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun á Sauðárkróki er fagnað.

Fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni er mikilvægur þáttur í að auka fjölbreytileika atvinnulífs hjá fjölmörgum sveitarfélögum landsbyggðarinnar. Sveitarfélögin eru misjöfn að stærð og gerð en eiga það öll sammerkt að fjölgun opinberra starfa eykur samkeppnisfærni þeirra og skapar þeim tækifæri til vaxtar og framþróunar.

Bæjarráð bendir þó á að til eru dæmi um að ríkisvaldið gangi í þveröfuga átt, svo sem með nýlegum uppsögnum aðstoðartollvarða á Seyðisfirði.

Bæjarráð hvetur stjórnvöld til að taka þá ákvörðun til endurskoðunar og að öll ráðuneyti og stofnanir ríkisins vinni markvisst að því að fjölga opinberum störfum sem víðast um landið. Til þess eru fjölmörg tækifæri.