Fjölgun hjúkrunarrýma fyrir aldraða á Egilsstöðum
Hjúkrunarrýmum fyrir aldraða á Egilsstöðum verður fjölgað um tólf í kjölfar ákvörðunar Félagsmálaráðherra. Fyrir eru átján hjúkrunarrými og verða eftir breytingar þrjátíu talsins.Um síðastliðin áramót var gerð breyting á lögum um málefni aldraðra í samræmi við breytta verkaskiptingu ráðuneyta. Samkvæmt lögunum fer félags- og tryggingamálaráðuneytið með yfirstjórn öldrunarmála, þar með talda uppbyggingu hjúkrunarrýma, en heilbrigðisráðuneytið fer með yfirstjórn heilbrigðisþjónustu við aldraða.
Í apríl 2007 gerðu Halldór Guðmundsson hjá Fljótsdalshéraði og Halla Eiríksdóttir hjá HSA skýrslu sem var lögð fram til heilbrigðisráðuneytis. Undanfarin tvö ár hefur verið unnið að því samhæfa stefnu í málefnum aldraðra, fyrst og fremst heima í Héraði með þáttöku HSA og Fljótsdalshéraðs. Halldór Guðmundsson annar skýrsluhöfunda segir mikilvægt að faglega hafi verið unnið að málinu af starfsmönnum ráðuneytisins. “Það er ánægjulegt að tekið hefur verið fullt tillit til þeirrar skýrslu sem við lögðum fram um úrbætur í þjónustu aldraðra á Fljótsdalshéraði. Þau áherluatriði sem við lögðum fram voru tekin til greina.” segir Halldór.
Í kjölfar greinargerðar sem var lögð fram í apríl 2007 samþykktu Fljótsdalshérað og HSA að vinna á grundvelli þeirrar stefnu og leituðu eftir samstarfi við ráðuneytið. Í maí kom fulltrúi félagsmálaráðuneytis í heimsókn og í framhaldinu tókst gott samstarf við starfsfólk ráðuneytisins. Afraksturinn er sá að farið verður í endurbætur öldrunardeildar og einstaklingshjúkrunarrúmum verður fjölgað. Auk þess verður lögð aukin áhersla á heimaþjónustu. “Lengi hefur legið ljóst fyrir að úrbætur þyrftu að koma til hvað varðar þjónustu við aldraða. Full samstaða hefur nú náðst milli ráðuneytis, HSA og Fljótsdalshéraðs um hvernig þjónustu við aldraða skuli háttað í framtíðinni.” segir Halldór Guðmundsson.
Samkvæmt áætlun um fjölgun hjúkrunarrýma fyrir aldraða sem félagsmálaráðuneyti hefur lagt fram hefjast framkvæmdir í janúar árið 2009. Þeim framkvæmdum á að ljúka í ágúst 2009.