Fjölbreytt sumardagskrá í Vatnajökulsþjóðgarði

Nóg er um að vera á austursvæði þjóðgarðsins í sumar. Í Snæfellsstofu eru daglegar barnastundir kl. 14 fyrir káta krakka á aldrinum 6-12 ára. Á meðan geta mamma og pabbi grúskað í sýningu og bókum, gætt sér á vistvænu kaffi eða jurtatei eða bara skellt sér með í fræðslugönguna.
Frá og með 12. júlí hefst svo hálendisdagskráin með daglegum fræðslugöngum með landvörðum í Snæfelli og Hvannalindum. Í Snæfelli hefst gangan við skálann „Náttúra og nýting” kl. 9 en í Hvannalindum „Á slóðum Eyvindar og Höllu” er gengið frá bílastæði inn við rústir kl 13. Í öllum göngunum er leiðsögn einnig í boði á ensku.
Ýmsir sérstakir viðburðir og lengri ferðir eru jafnframt í boði með landvörðum þjóðgarðsins í sumar. Þar má nefna Hvannalindagöngu sem kallast ”Liggur í Kreppu lítil rúst” þann 29. júlí og 12. ágúst. Gengið verður frá bílastæði inn við rústir eftir Kreppuhrygg þar sem víðsýnt er til allra átta og farið til baka meðfram hraunjaðrinum við bakka Lindár. Gangan endar við rústir útilegumanna í Lindahrauni.
Í Snæfelli verður gengið ”Á toppinn“ ef veður leyfir þann 21. júlí og 4.
ágúst. Snæfellstindur er hæstur tinda á Íslandi utan jökla, 1833 m hár. Á degi landvarða þann 31. júlí og 11. ágúst verður farin ferðin ”Á refilstigum”
þar sem gengið verður um byggðir útilegumanna undir Snæfelli og reynt að setja sig í spor ógæfumanna á fyrri öldum, sem höfðu í fá hús að venda önnur en óblíð öræfi landsins. Lagt verðu í hann frá Snæfellsskála inn með Þjófadalsá á milli vesturhlíða Snæfells og Langahnjúks, inn í Þjófadali þar sem talið er að útilegumenn hafi hafist við. Loks verður gengið að mynni dalsins ofan Þóriseyja (Eyjabakka) og svo tilbaka í Snæfellsskála.
Fleiri viðburði er að vænta í sumar og gott að fylgjast með heimasíðu þjóðgarðsins www.vjp.is Fyrir frekari upplýsingar varðandi göngur og tímasetningar er hægt að hafa samband við starfsfólk Snæfellsstofu eða landverði.