Fjölbreytt dagskrá á þjóðhátíðardaginn

Hægt verður að fá andlitsmálun í Tjarnargarðinum fyrir börn, 10 ára og yngri, frá klukkan 12:30 til …
Hægt verður að fá andlitsmálun í Tjarnargarðinum fyrir börn, 10 ára og yngri, frá klukkan 12:30 til 15.

Þjóðhátíðardagur Íslendinga verður haldinn hátíðlegur 17. júní í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum með fjölbreyttri dagskrá frá morgni og fram eftir degi. Klukkan 9:30 verða kassabílaþrautir Dekkjahallarinnar á sparkvellinum við Egilsstaðaskóla. Þangað eru allir hvattir til að mæta með kassabíla og taka þátt í skemmtilegri keppni. Skráning og frekari upplýsingar gefur Kristdór á netfangið kristdor@dekkjahollin.is fyrir 15. júní.

Klukkan 10:30 er hátíðarmessa í Egilsstaðakirkju fyrir alla fjölskylduna. Prestur er sr. Þorgeir Arason og kór Egilsstaðakirkju syngur.

Klukkan 11:00 er skrúðganga frá Egilsstaðakirkju í Tjarnargarðinn og hvatt er til að menn fjölmenni í hátíðarskapi.

Klukkan 11:15 sýnir Einar einstaki, töframaður, töfrabrögð á sviðinu í Tjarnargarðinum í boði Tannlæknastofu Austurlands og VHE.

Klukkan 12:00 fer fram undirritun samnings um uppbyggingu Íþróttamiðstöðvarinnar á Egilsstöðum milli íþróttafélagsins Hattar og Fljótsdalshéraðs á sviðinu í Tjarnargarðinum.

Klukkan 12:10 hefst svo fimleikasýning fimleikadeildar Hattar í boði Tannlæknastofu Austurlands og VHE.

Klukkan 12:30-13:30 fer fram LEGO samkeppni verkfræðistofunnar Eflu. Móttaka verka verður við sviðið í Tjarnargarðinum. Börn sem fædd eru 2005 til 2012 skila inn verkum úr legókubbum frá klukkan 12.30-13.30. Þemað er ,,BYGGINGAR FRAMTÍÐARINNAR“

Klukkan 12:30-15:00 er hægt að fá andlitsmálun í Tjarnargarðinum fyrir börn, 10 ára og yngri, í boði Tannsmiðjunnar Bros, Sjóvá, Bólholts, Snyrtistofunnar Öldu og Bókhaldsskrifstofu Þórhalls.

Frá klukkan 12:30 til 15:00 er hægt að fara í hoppukastala í boði HEF, Mannvits og 701 Hotels.

Milli klukkan 13:00 og 14:30 sprellar Tralli trúður í Tjarnargarðinum fyrir börnin.

Klukkan 13:30 hefst hátíðardagskráin og er hún eftirfarandi:

  • Kirkjukór Egilsstaðakirkju
  • Hátíðarræða
  • Tónlistaratriði
  • Fjallkona
  • Árleg viðurkenning Rótary
  • Tónlistaratriði
  • Húslestur
  • Verðlaunaafhending, LEGO samkeppni verkfræðistofunnar Eflu
  • Verðlaunaafhending, kassabílaþrauta Dekkjahallarinnar
  • Tónlistaratriði

Þá er vakin athygli á því að kl. 15.30 verður Sumarsýning MMF opnuð í Sláturhúsinu menningarsetri. Þetta er um það leyti sem dagskránni er að ljúka í Tjarnargarðinum. Sumarsýningin verður síðan opin þriðjudaga til laugardaga frá klukkan 11:00 til 16:00 til 15. september. Við opnunina sýnir slóvenska listakonan Katarina Caková smáhlutabrúðuleikhús. Sumarsýning MMF samanstendur af þremur ólíkum sýningum á báðum hæðum hússins, en þær eru:

Þorpið á Ásnum
Samsýning Héraðsskjalasafns Austurlands og Minjasafns Austurlands í tilefni af 70 ára afmæli Egilsstaðahrepps.
Amma
Sýning á textílverkum eftir Guðnýju Marinósdóttur, en verkin byggir hún m.a. á á lífshlaupi ömmu sinnar, Guðnýjar Einarsdóttur og skrásetningu á afkomendum hennar.
Fædd í Sláturhúsinu
Fjölþjóðleg fjöllistasýning sem Steinunn Gunnlaugsdóttir stendur fyrir ásamt hóp listamanna frá fjölmörgum löndum. Allir hjartanlega velkomnir á opnun sýninganna!

Loks er minnt á að íþróttamiðstöðin á Egilsstöðum, bæði sundlaug og Héraðsþrek, verður lokuð á þjóðhátíðardaginn.