Listahátíðin List án Landamæra verður haldin í Sláturhúsinu á Egilsstöðum sunnudaginn 3. maí milli kl. 14 og 18. Í boði er leiklist, myndlist, tónlist, danslist, handverk, grænlenskur trommudans, kaffihús í umsjón kvenfélagsins og fleira. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.
List án landamæra er haldin í sjötta sinn að þessu sinni. Undanfarin ár hafa fatlaðir og fatlaðir unnið saman að ýmsum listtengdum verkefnum með frábærri útkomu. Hátíðin var fyrst haldin á Evrópuári fatlaðra 2003-2004 og var ákveðið upp frá því að gera þetta að árlegum viðburði og hafa sífellt fleiri þátttakendur og áhorfendur bæst við á ári hverju.
Dagskrá Listar án landmæra á Fljótsdalshéraði er sem hér segir.
Ævintýrið Leiklist kl. 14.00
Leiksmiðja fyrir fatlaða þar sem grunnþemað er ævintýri. Hver þátttakandi velur sér persónu úr ævintýraveröldinni, hvort sem þar er um að ræða kóng, drottningu, prins, prinsessu, tröll, tré eða blóm. Þannig getur hver og einn gengið inn í sitt hlutverk eftir líkamlegri og andlegri færni og getu. Spunnið verður út frá þekktum ævintýrum og þemum þeim tengdum þannig að úr verði nýtt leikverk, samið og leikið af hópnum. Leiðbeinandi: Sigurður Ingólfsson.
Listasmiðja Leik/Mynd
Listasmiðjan Leik/Mynd er unnin í samstarfi við listasmiðjuna Ævintýrið Leiklist. Þátttakendur fá að spreyta sig á því að vinna að leikmynd fyrir leiksýninguna. Þeir vinna aðallega með ljós og skugga með eigin líkama og með því að klippa út fígúrur í karton og varpa þeim á hvítt tjald á leiksýningunni Ævintýrið. Einnig mun hver þátttakandi gera eina portrett mynd - sjálfsmynd. Þær myndir verða einnig til sýnis á uppskeruhátíðinni sunnudaginn 3. maí. Leiðbeinandi: Ólöf Björk Bragadóttir.
Danssýning barna í Hallormsstaðaskóla kl. 15.00
Sýning barna 6-9 ára á ýmsum dönsum m.a. sýning á frumsömdum dansi eftir Þráinn kennara þeirra, við tónlist frá Kenýa. Leiðbeinandi: Þráinn Skarphéðinsson, þjóðdansafélaginu Fiðrildunum.
Doo doo bird and the elephants og grænlenskur dansari kl. 15.30
Tónlistarflutningur í ,,geðveika kaffihúsinu. Tónlistarmennirnir Óðinn Gunnar, Matti, Kati, James og Xabi leika af fingrum fram.
Anna Thastum, trommudansari frá Grænlandi flytur seiðmagnaðan grænlenskan gjörning kl. 16:00 Ekki missa af þessum einstaka viðburði frá góðum nágranna okkar frá Grænlandi.
,,Geðveikt kaffihús" opið kl. 14-18
Boðið verður upp á ljúffengar veitingar, ljóðaupplestur og fleira óvænt. Sala á fallegu handverki frá Stólpa. Prjónar, læknasloppar og spennitreyjur velkomnar!
Sjálfsmyndir
Ýmsir íbúar sveitarfélagsins, skjólstæðingar Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra, nemendur grunnskólanna á Fljótsdalshéraði og Menntaskólans á Egilsstöðum búa til sjálfsmyndir úr ólíkum efnivið og sýna afrakstur í Sláturhúsinu. Ólíkir stílar og ólík nálgun býður upp á mjög fjölbreytta og skemmtilega samsýningu.
Leirlist
Leirlistarsýning nemenda Anne Kampp leirlistakonu. Fallegir gripir til sýnis og sölu. Ólíkir stílar og ólík nálgun býður upp á mjög fjölbreytta og skemmtilega samsýningu.
Frjáls eins og fuglinn
Stutt námskeið var haldið 4. apríl þar sem um 60 þátttakendur bjuggu til fugla úr þæfðri ull, vír, silki, pappír o.fl. Í framhaldi af námskeiðinu birtast fuglarnir á óvæntum stöðum á Egilsstöðum fram að 3. maí sem boðberar friðar og sköpunarfrelsis persónunnar. Leiðbeinendur: Erla Vilhjálmsdóttir og Halla Ormarsdóttir.
Samstarfsaðilar um hátíðina eru Fjölmennt, Fullorðinsfræðsla fatlaðra, Átak, Félag fólks með þroskahömlun, Hitt húsið, Öryrkjabandalag Íslands og Landssamtökin Þroskahjálp.