Fjölbreytt dagskrá á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs

Nóg er um að vera á austursvæði þjóðgarðsins í sumar. Í Snæfellsstofu eru daglegar barnastundir klukkan 14 fyrir krakka á aldrinum 6-12 ára. Farið er út þar sem nágrennið og náttúran er rannsökuð. 
Í sumar fram að 12. ágúst verður boðið upp á daglegar göngur kl. 9 að Litlanesfossi í Hengifossá. Hist er á bílastæðinu við Hengifoss. Ennig er hægt að fara í göngu alla daga nema þriðjudag með landverði að rústum bæjar útilegumanna í Hvannalindum klukkan 13 og landvörður í Snæfellsskála býður upp á kvöldrölt klukkan 20 á Vestari-Sauðahnúk.

Á morgun laugardaginn, 27. júlí verður ganga með landverði í Hvannalindum. Gengið verður að Kreppuþröng og þaðan á Kreppuhrygg. Farið verður til baka meðfram hraunjaðrinum á bökkum Lindaár. Gangan endar við rústir bæjar útilegumanna í Lindahrauni. Mæting á bílaplaninu í Hvannalindum kl. 13.00. Þess má geta að það tekur tæpa tvo klukkutíma að keyra í Hvannalindir úr Möðrudal. Gangan tekur um fjóra tíma.

Miðvikudaginn 31. júlí á alþjóðadegi landvarða er áhugasömum boðið upp á að kynnast störfum landvarða. Mæting er klukkan 13 við Hengifoss og dagskráin tekur um þrjá tíma.

Þá verður gengið „Á refilstigum“ frá Snæfellsskála um byggðir útilegumanna í Þjófadölum undir Snæfelli og nágrenni laugardagana 3. og 10. ágúst. Mæting er við Snæfellsskála klukkan 10. Gangan tekur fimm tíma og og minnt er á að það tekur a.m.k. hálfan annan tíma að keyra frá Egilsstöðum í Snæfell. 

Hægt er að fylgjast með viðburðum og fá nánari upplýsingar á heimasíðu þjóðgarðsins www.vjp.is og facebooksíðu. Fyrir frekari upplýsingar varðandi göngur og tímasetningar er hægt að hafa samband við starfsfólk Snæfellsstofu eða landverði.