Fjögur mál á fundi ungmennaráðs og bæjarstjórnar

Sameiginlegur fundur ungmennaráðs og bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs fór fram 1. mars síðast liðinn. Fundir sem þessir eru haldnir einu sinni til tvisvar á ári. Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs er skipað 10 fulltrúum frá grunnskólum sveitarfélagsins og framhaldsskólunum tveimur svo og nokkrum félagasamtökum. Ráðið er skipað til eins árs í senn og fundar einu sinni í mánuði yfir vetrarmánuðina.

Á fundi ungmennaráðs og bæjarstjórnar í síðustu viku voru fjögur mál á dagskrá. Fyrst var fjallað um dagvistunarmál og nauðsyn þess að börn eigi kost á dagvistun í sveitarfélaginu.

Þá var geðheilbrigðisþjónusta til umfjöllunar og rætt um nauðsyn þess að boðið sé upp á viðeigandi geðheilbrigðisþjónustu á svæðinu. Í bókun fundarins kemur fram að „ungmennaráð leggur áherslu á að bæjarstjórn beiti sér fyrir eflingu geðheilbrigðisþjónustu á svæðinu. Ungmennaráð vekur athygli á verkefni sem unnið er í Menntaskóla Borgarfjarðar í samvinnu við Stéttarfélag Vesturlands og veltir upp hvort möguleiki er á svipuðu samstarfi á Fljótsdalshéraði.“

Þriðji liður á dagskrá var gjaldskrá íþróttamiðstöðvar fyrir ungt fólk. Undir þeim lið beindi ungmennaráðið því til íþrótta- og tómstundanefndar að endurskoða gjaldskrá íþróttamiðstöðvarinnar með tilliti til afsláttar fyrir ungmenni. Þá óskar ungmennaráð eftir aðkomu að vinnu við endurskoðunina.

Síðasta mál á dagskrá fundarins var um Fljótsdalshérað sem plastpokalaust sveitarfélag. Málið hefur áður verið til umfjöllunar hjá ungmennaráðinu svo og í umhverfis- og framkvæmdanefnd. Fram kom í máli bæjarfulltrúa á fundinum að sveitarfélagið hafi tekið ákvörðun um að verða plastpokalaust frá byrjun árs 2018. Á fundinum ítrekaði ungmennaráðið óskir sínar um aðkomu að verkefninu.