Fjárhagsáætlun Fljótsdalshéraðs 2010 samþykkt

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs samþykkti á fundi sínum í gær, 16. desember, fjárhagsáætlun fyrir árið 2010. Áætluð afkoma samantekins A og B hluta er jákvæð um eina milljón króna á árinu 2010.  Endurskoðuð áætlun 2009 gerir ráð fyrir neikvæðri afkomu sem nemur 340 milljónir. Eigið fé er áætlað að nemi 879 milljónum í árslok 2010 og eiginfjárhlutfallið verði þá 15%.  Veltufé frá rekstri er jákvætt um 297 milljónir, sem er 209 milljónum króna betri niðurstaða en samþykkt áætlun 2009 gerir ráð fyrir.

Þróun fjármagnsliða á árunum 2008 og 2009 hefur haft veruleg áhrif á fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og stofnanir þess.  Á árinu 2010 eru fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur áætluð 279 milljónir og þar af nema reiknaðar verðbætur og gengismunur án greiðsluáhrifa 122 milljónum miðað við 3% verðbólgu innan ársins.

Fjárfestingarhreyfingar nema um 512 milljónum króna. Þar af 102 milljónir í B-hluta, þ.e. til Hitaveitu Egilsstaða og Fella ehf 45 milljónir og til Fráveituframkvæmda er varið 57 milljónum króna.  Fjárfestingar A-hluta nema 410 milljónum og eru um 280 milljónir þar af vegna grunnskólans á Egilsstöðum. Þá er varið 137 milljónum til gatnagerðaframkvæmda.  Á móti koma tekjur sem eru áætlaðar um 47 milljónir. Til að fjármagna þær fjárfestingar sem áformað er að fara í þarf að fara í lántökur að fjárhæð 330 milljónir króna. Afborganir lána nema 312 milljónum króna á árinu 2010.  Þar af 238 milljónir í A-hluta.

Fjárhagsáætlun Fljótsdalshéraðs fyrir 2010  má finna á heimasíðu sveitarfélagsins, eða hér. Hægt er að fara beint á fjárhagsáætlunina hér og greinargerð með henni hér.