Á fundi bæjarráðs Fljótsdalshéraðs 28. júlí, var lögð fram til kynningar og umræðu bókun bæjarstjórnar Seyðisfjarðar frá 14. júlí sl. varðandi gerð jarðgangna milli Seyðisfjarðar og Héraðs. En þar ítrekaði bæjarstjórn Seyðisfjarðar fyrri ályktanir sínar um rannsóknir og undirbúningsvinnu vegna gerðar Fjarðarheiðarganga og skorar á samgönguyfirvöld að setja jarðgöngin inn á næstu samgönguáætlun. Í greinargerð með áskoruninni er að finna mörg rök fyrir því að hraða þessari framkvæmd, bæði hvað varðar öryggismál, atvinnumál, flutninga, ferðaþjónustu, verslun og þjónustu. Fljótsdalshérað hefur ávallt stutt þessar hugmyndir, hvort sem rætt er um Fjarðarheiðargöng sem eina framkvæmd eða hluta af Samgöngum.
Á fundi bæjarráðs Fljótsdalshéraðs var lýst fullum stuðningi við bæjarstjórn Seyðisfjarðar í baráttu þeirra fyrir jarðgöngum sem tengja Seyðisfjörð við Hérað. Í bókun bæjarráðsins kemur fram að Fljótsdalshérað hafi af heilum hug stutt við baráttu nágrannasveitarfélaga fyrir samgöngubótum innan fjórðungsins og mun gera það áfram.