Fjárafl, atvinnu- og þróunarsjóður Fljótsdalshéraðs, hefur auglýst eftir umsóknum til stuðnings við verkefni sem efla byggð í dreifbýli sveitarfélagsins. Það verður því í þriðja sinn í haust sem úthlutað verður úr sjóðnum.
Aðstoð sjóðsins til samþykktra aðila getur falist í eftirfarandi:
Styrkjum til verkefna er lúta að atvinnusköpun og atvinnuþróun, hagnýtum rannsóknum og framþróun annarra samfélagsþátta sem áhrif geta haft á búsetu í dreifbýli sveitarfélagsins.
Lánum til nýsköpunarverkefna á sviði vöruþróunar, sóknar á nýja markaði, tækniyfirfærslu milli fyrirtækja eða stofnunar sprotafyrirtækja. Áhættulán og skuldabréfalán sem veitt eru geta innifalið breytirétt í hlutafé.
Hlutafjárkaupum í fyrirtækjum sem eru til þess fallin að styrkja atvinnulíf sem fyrir er í dreifbýlinu og/eða skapa störf sem auka atvinnumöguleika íbúa þess.
Stofnfjárframlögum til samvinnufélaga og sjálfseignarstofnana sem hafa hlutverk er varðar hagsmuni íbúa, fyrirtækja eða stofnana í dreifbýli.
Umsóknarfrestur er til 16. júlí 2007, en umsóknum skal skila á skrifstofu Fljótsdalshéraðs í Fellabæ eða á Egilsstöðum. Upplýsingar um sjóðinn má nálgast hér. Umsóknareyðublöð má finna á heimasíðu sveitarfélagsins undir Umsóknir.
Á fundi Fjárafls, sem haldinn var í mars síðast liðinn, var tveimur verkefnum úthlutað styrkjum úr sjóðnum. Þetta var annars vegar til þróunar og markaðssetningar á byggi og réttum úr byggi, en Eymundur Magnússon hlaut eina milljón í styrk til þess. Hins vegar hlaut Edda Kr. Björnsdóttir fimm hundruð þúsund krónur til undirbúnings á Grasa-Guddu, sem er verkefni um úrvinnslu á staðbundnu jurtahráefni til matvælaframleiðslu s.s. úr skógarsveppum og berjum.