Fimleikahúsið tekið formlega í notkun

Viðbygging við Íþróttamiðstöðin á Egilsstöðum verður formlega tekin í notkun laugardaginn 12. september klukkan 14:00. Í tilefni af þessu er öllum grunnskólabörnum fæddum 2005 til 2014 hjartanlega boðið að koma en vegna sóttvarnarráðstafana er um að ræða boðsviðburð fyrir 16 ára og eldri og því aðeins sérstakir boðgestir sem geta verið viðstaddir. Að loknum ávörpum verður opnað inn í nýjan sal þar sem Fimleikadeild Hattar heldur sýningu og fólki gefst kostur á að skoða nýja aðstöðu. Öll börn fá léttar veitingar að lokinni dagskrá.

Dagksrá:

  • Ávarp formanns Hattar
  • Ávarp bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs
  • Ávarp forseta Íslands
  • Ávarp mennta- og menningarmálaráðherra
  • Ávörp fulltrúa UMFÍ og ÍSÍ

Viðbyggingin sem tekin verður í notkun á laugardaginn er rúmlega 1.000m2. Þar er að finna fullbúið fimleikahús ásamt hlaupabrautum og stökkgryfju fyrir fjálsíþróttir.

Það er Íþróttafélagið Höttur sem stóð að byggingu hússins í samstarfi við Fljótsdalshérað en aðdragandi verkefnisins byrjaði formlega 2015 þegar viljayfirlýsing var undirrituð á milli aðila. Tveimur árum síðar var samningur undirritaður þar sem tekin var ákvörðun um byggingu hússins. Árið 2018 var svo fyrsta skóflustungan tekin og framkvæmdir hófust í framhaldinu.

Með tilkomu bættrar aðstöðu undir íþróttaiðkun er verið að taka stórt skref til framtíðar þar sem börn og unglingar á Fljótsdalshéraði og Austurlandi öllu hafa tækifæri til að ná markmiðum sínum og ná enn lengra á sínum sviðum.