Filman er ekki dauð

Þið eruð boðin velkomin á opnun sýningarinnar Filman er ekki dauð eftir Kox sunnudaginn 7. apríl klukkan 14:00. Sýningin fer fram í Sláturhúsinu, Egilsstöðum, í samstarfi við Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs. Léttar veitingar í boði og öll velkomin.

Ljósmyndarinn Kox, eða Kormákur Máni Hafsteinsson, sýnir ljósmyndasýninguna Filman er ekki dauð í Sláturhúsinu. Myndirnar sem birtast áhorfendum á sýningunni hafa allar verið teknar á gömlu góðu filmuna vítt og breitt um austur- og norðausturlandið.

Helstu viðfangsefni sýningarinnar eru landslag, en myndirnar voru teknar veturinn 2018-2019. Kox fangar kyrrðina í landslaginu og býður áhorfandanum að njóta þess tímaleysis sem landslaginu fylgir.

Filman er krefjandi hráefni sem krefst vandvirkni. Hver rammi skiptir máli og langt getur liðið milli ljósmyndunar og framköllunar. Það er eitt af því sem hrífur Kox við filmuna að „…maður getur ekki séð strax hvað maður er að gera“.

Kox byrjaði að mynda þegar hann bjó í Noregi fyrir rúmlega áratug. Hann hefur undanfarin ár starfað hjá Myndsmiðjunni á Egilsstöðum og ætti því að vera austfirðingum kunnugur. Sjálfur er hann austfirðingur í húð og hár, með tengingar til Borgarfjarðar og Egilsstaða.

Undanfarin ár hefur Kox haldið samsýningar og einkasýningar bæði hér heima og úti í Noregi.

Hlekkur á viðburð:
https://www.facebook.com/events/955506827974748/