Fellaskóli og Sorö Friskole vinna samstarfsverkefni

Í gær, mánudaginn 21. september, lögðu fjórtán nemendur úr 8. og 9. bekk Fellaskóla, ásamt tveimur kennurum, land undir fót til móts við tíu nemendur og tvo kennara úr Sorö Friskole í Danmörku. Sorö er vinabær Fljótsdalshéraðs og óskaði skólinn eftir samskiptum við jafnaldra á Fljótsdalshéraði. Hóparnir dvelja saman á farfuglaheimili í Reykjavík til föstudags og á meðan munu þeir fræðast um verkefni sem hafa verið undirbúin í hvorum skóla fyrir sig.

Nemendur Fellaskóla munu kynna nýtingu jarðvarma á Fljótsdalshéraði og hafa verið í samstarfi við Hitaveitu Egilsstaða og Fella við undirbúning. Þau hafa einnig unnið kynningarmyndband um sjálf sig og Fellaskóla. Danirnir munu með sama hætti kynna verkefni sem þeir hafa undirbúið. Saman munu hóparnir einnig ferðast og fara meðal annars Gullna hringinn, ganga á Esjuna, fara í hvalaskoðunarferð og halda kynnningar á íslenskum og dönskum mat.

Það sem gerir Fellaskóla kleift að taka þátt í þessu verkefni er að Sorö Friskole sótti um styrki vegna verkefnisins og kostnaður skólanna því í algjöru lágmarki. Hinn undirliggjandi tónn í verkefnavinnunni er af alvarlegri toga, en Danirnir hugsa þetta sem leið til að vekja áhuga nemendanna á loftslagsbreytingum og tengja þetta við ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem fram fer í Kaupmannahöfn í 5.-18. desember næstkomandi.

Á meðfylgjandi mynd má sjá hópinn úti á flugvelli en þetta eru: Efri röð - Ólafur Geir, Kristófer Vikar, Rannveig, Magdalena, Elín Dóra, Lilja Iren og Árdís Ósk.
Neðri röð - Sigfús Jörgen, Pálmi, Nikolas og Steinar Atli.