Á fundi menningarnefndar Fljótsdalshéraðs þann 10. desember var samþykkt samhljóða að stofnuð verði húsráð við hvert félagsheimili sveitarfélagsins. Þá var tilkynnt að opnuð hefði verið skrá listaverka í eigu sveitarfélagsins á heimasíðunni.
Á fundinum samþykkti nefndin að stofnað yrðu húsráð við hvert félagsheimili sveitarfélagsins sem eru að Arnhólsstöðum, Hjaltalundi og Iðavöllum og taki þau til starfa í upphafi árs 2009. Samkvæmt tillögunni á hvert húsráð að vera skipað 3 fulltrúum. Menningarnefnd skipi 1 fulltrúa sem verði fulltrúi í öllum húsráðunum og formaður þeirra. Tveir fulltrúar verði síðan frá nærsamfélagi hvers félagsheimilis. Það er hlutverk ráðanna að kynna hugmyndir um rekstur húsanna og framtíðarrekstraform þeirra sem áætlað er að skila fyrir mitt árið 2009. Á fundi bæjarstjórnar í gær þann 17. desember var samþykkt að vísa tillögu menningarnefndar til fasteigna og þjónustunefndar til umfjöllunar.
Á fundi menningarnefndar var einnig kynnt skrá listaverka í eigu sveitarfélagsins sem opnuð var þann sama dag hér. Um er að ræða skrá yfir þau listaverk sem sveitarfélaginu hefur áskotnast í gegnum tíðina. Þar kemur fram hvar listaverkin eru varðveitt en flest þeirra hanga uppi í stofnunum sveitarfélagsins. Einnig eru mörg þeirra í geymslu í Héraðsskjalasafni Austfirðinga. Það hefur verið mikið verk að finna upplýsingar um öll listaverkin og eru allar upplýsingar vel þegnar. Þeir sem vilja koma upplýsingum á framfæri er bent á að hafa samband við Karen Erlu Erlingsdóttur, menningar og frístundafulltrúa með tölvupósti á karen@egilsstadir.is