Helgina 5. til 6. maí 2007 verður árleg hreinsun í þéttbýli á Fljótsdalshéraði. Þess er vænst að íbúar Brúaráss, Egilsstaða, Eiða, Fellabæjar og Hallormsstaðar taki til hendinni í sínu nánasta umhverfi þannig að allir geti gengið stoltir frá góðu dagsverki.
Hvatt er til þess að fjarlægð séu bílflök af einkalóðum og er í því samhengi minnt á skilagjald vegna þeirra. Einnig eru menn hvattir til að hreinsa rusl úr görðum sínum og nánasta umhverfi, laga til á einkalóðum og snyrta gróður, þá sérstaklega þar sem hann slútir út fyrir lóðamörk.
Setja má ruslið að götukanti á sunnudagskvöldi en starfsmenn sveitarfélagsins munu fjarlægja það á mánudagsmorgun eftir hreinsunarhelgina. Á undangegnum hreinsunardögum hefur þurft að fara tvær til þrjár ferðir í hverfi þar sem rusl úr görðum hefur verið sett út við lóðarmörk eftir að hreinsunarbílar hafa farið um hverfin. Er því eindregið farið fram á að íbúar safni ruslinu saman þessa helgi og komi því út að lóðarmörkum á sunnudagskvöldið. Ekki er tekið við rusli sem kemur innan úr húsum eða bílskúrum. Íbúar geta sótt sér ruslapoka endurgjaldslaust eftir hádegi á föstudaginn.
Sorpstöð Héraðs verður opin frá kl. 10:00 16:00 laugardaginn 5. maí 2007. Þar verður tekið á móti öllu brotajárni endurgjaldslaust eins og aðra daga. Minnt er á að íbúar Fljótsdalshéraðs geta skilað inn 50 kg af blönduðum úrgangi sér að kostnaðarlausu en tekið er á móti öðrum úrgangi skv. gjaldskrá.
Garðaúrgang má fara með á svæðið utan Eyvindarár. Athugið að þangað má þó eingöngu garðaúrgangur fara, s.s. lauf, mosi, rætur, gras og greinar. Það er stranglega bannað að skilja eftir annan úrgang svo sem byggingaúrgang, búslóðir, ökutæki, sorp og plast.