Farandsýning fyrir unglinga í Sláturhúsinu

Leiksýningin Skuggamynd stúlku verður sýnd fyrir nemendur í 7. – 10. bekk í Sláturhúsinu menningarmiðstöð á Egilsstöðum fimmtudaginn 22. febrúar. Sýningin er farandsýning á vegum List fyrir alla. Alls verða þrjár sýningar í Sláturhúsinu fyrir nemendur Brúarásskóla, Egilsstaðaskóla, Fellaskóla og Seyðisfjarðarskóla.

Um verkið Skuggamynd stúlku segir á vef List fyrir alla:
„Braidie er 15 ára, hún hefur ákveðið að það er ekki lengur fyrir hana að mæta í skólann og hún og mamma hennar fara óstjórnlega í taugarnar á hvor annarri þessa dagana. Bróðir hennar er fluttur í annað sveitarfélag og hún saknar hans, það er alltof mikil pressa á henni einni eftir að hann fór. Hún er heltekin af fréttaflutningi af raunverulegu máli ungrar stúlku sem var myrt af jafnöldrum sínum. Hún minnist þess þegar vinkona hennar tilkynnti einn daginn að í dag væri ,,skammardagur”, þá ættu allar að taka eina stelpuna fyrir og vera vondar við hana. Af hverju? Hún vissi það ekki sjálf, þetta var bara partur af skólanum. Dagarnir urðu fleiri og þær tóku alltaf sömu stelpuna fyrir. Braidie man alveg þegar hún grátbað um hjálp. Og hún man alveg hvernig það var að horfa á vinkonu sína, gerandann, og þekkja hana ekki fyrir sömu manneskju. Þær voru báðar, gerandinn og þolandinn, eins og skuggamyndir af sjálfum sér. En hvernig getur hún ein hjálpað þegar hópþrýstingurinn að taka þátt er svona mikill? Og við hvern ætti hún eiginlega að tala?“