- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Ester Sif Björnsdóttir hefur hlotið inngöngu á listdansbraut Danslistarskóla JSB eftir erftt inntökupróf sem fór fram í Reykjavík. Þar dansaði Ester fyrir framan dómnefnd og kepptu þar tæplega 50 dansarar um helmingi færri pláss. Að inntökuprófum loknum var 30 efnilegum dönsurum boðið í viðtal og að lokum var 25 boðið pláss.
Ester hefur stundað dans hjá Dansstúdíó Emelíu frá 10 ára aldri ásamt því að taka þátt í danslistahóp vinnuskólans á Fljótsdalshéraði. Þá hefur hún stundað fimleika með Hetti frá barnsaldri.
Ester var einnig boðið pláss á listdansbraut Klassíska listdansskólans, en valdi að sækja nám í Danslistarskóla JSB. Hún hefur dansnámið í Reykjavík þann 23. ágúst í haust.
Í fréttatilkynningu frá Dansstúdíói Emilíu segir að þetta séu stór tímamót fyrir dansnemendur frá Fljótsdalshéraði. En Ester sem er fædd 1996 og útskrifast úr grunnskólanum á Egilsstöðum í vor kennir við Dansstúdíóið í sumar.
Nám við listdansbraut Danslistarskóla JSB tekur mið af aðalnámskrá menntamálaráðuneytisins varðandi kennslu og fagleg viðmið fyrir listdanskennslu á grunn- og framhaldsskólastigi. Framtíðarsýn JSB byggir á að skólinn hlúi jafnframt að sérstöðu sinni. Skólinn sérhæfir sig í jazz- og nútímadansi. Þjálfunin byggir á klassískum grunni en undirstaða alls listdans er talinn vera klassískur ballett. Áhersla er lögð á dansinn sem leikhúsform. Lögð er áhersla á leikræna tjáningu samhliða dansþjálfuninni. Haldnar eru nemendasýningar í nemendaleikhúsi skólans árlega og við önnur hátíðleg tækifæri.