Í gær var undirritaður þjónustusamningur milli Fljótsdalshéraðs og Nýherja um rekstur allra tölvukerfa sveitarfélagsins. Um er að ræða endurgerð gildandi samnings við Tölvusmiðjuna / Nýherja frá 2005 en rétt þótti að yfirfara samningsgrunninn og laga að nýjum aðstæðum.
Hinn nýi þjónustusamningur er altækur samningur og gildir til haustsins 2012. Með samningnum sér Nýherji um rekstur neta, gagnagrunna og gagnahýsingu sveitarfélagsins. Rekstur upplýsingakerfa Fljótsdalshéraðs er því alfarið í höndum Nýherja, eins og hann hefur verið frá því félagið keypti Tölvusmiðjuna.
Gunnar Bjarnason, deildarstjóri hýsingar og rekstrarþjónustu Nýherja segir að með samningnum sé víðtækari þjónusta veitt en áður. Það verður meiri þjónusta við net grunnskólanna. Eins vil ég nefna að í þeirri þjónustu felast læsingar og forvarnir vegna netnotkunar barna. Þar með verður tryggt að nemendur geti ekki skoðað óæskilegar heimasíður í tölvukerfum grunnaskólanna. Gunnar segir að með samningnum tryggi sveitarfélagið sér betri aðgang að starfsfólki Nýherja. Það verður alltaf hægt að komast í samband við hæfa starfsmenn til að fá aðstoð. Tæknimenn geta í símtali sinnt þörfum starfsmanna og veitt þá aðstoð sem óskað er eftir án þess að koma á staðinn. Nýherji rekur starfsstöð á Egilsstöðum og þar starfa þrír starfsmenn.