Eldvarnir og fræðsla í leikskólum Fljótsdalshéraðs

Leikskólar Fljótsdalshéraðs hafa undirritað samkomulag við Brunavarnir á Austurlandi um eldvarnir og fræðslu. Samkomulagið felur í sér að leikskólarnir og slökkviliðið taka höndum saman um að auka öryggi barna og starfsmanna leikskólanna með öflugu eldvarnareftirliti og fræðslu.

Það voru leikskólastjórarnir og Baldur Pálsson slökkvliðstjóri sem undirrituðu samkomulagið. Samkvæmt samkomulaginu er hlutverk slökkviliðsins að heimsækja hvern leikskóla tvisvar á ári hverju. Annars vegar til að skoða hvernig eldvörnum er háttað og ráðleggja um úrbætur. Hins vegar til þess að ræða við elstu börnin um eldvarnir. Slökkviliðið leggur til allt fræðsluefni í þessu sambandi. Leikskólastjórar fá í hendur möppu með upplýsingum um eldvarnareftirlit og rýmingu. Elstu börnin í leikskólanum fá möppu frá slökkviliðiðnu með verkefnum sem tengjast eldvörnum. Í möppunni eru einnig upplýsingar um eldvarnir heimilanna og taka börnin hana því með sér heim og sýna foreldrum og forráðamönnum. Hlutverk leikskólanna er að taka á móti fulltrúum slökkviliðsins og gefa sér nauðsynlegan tíma í þessar heimsóknir og verkefni sem tengjast þeim. Leikskólarnir setja sér það markmið að hafa eldvarnir ævinlega í lagi og í því skyni aðgæta þær helstu atriði eldvarna mánaðarlega samkvæmt gátlista sem slökkviliðið lætur í té. Ennfremur skuldbinda leikskólarnir sig til þess að gera rýmingaráætlun og halda rýmingaræfingu árlega samkvæmt leiðbeiningum frá slökkviliðinu. Nemendur og starfsmenn leikskólanna fagna þessu samkomulagi og takast glöð á við þetta spennandi verkefni.