Eldri borgarar í örnefnaskráningu

Á myndinni má sjá þá sem tóku þátt í námskeiðinu um skráningu örnefna í skráningarkerfi Landmælinga …
Á myndinni má sjá þá sem tóku þátt í námskeiðinu um skráningu örnefna í skráningarkerfi Landmælinga Íslands

Fljótsdalshérað og Landmælingar Íslands gerðu í októbermánuði með sér samstarfssamning sem miðar að því að vinna saman að því að skrá örnefni á Fljótsdalshéraði og koma þeim í landfræðilegt upplýsingakerfi Landmælinga Íslands. Samstarf þetta er til að tryggja að örnefni og staðsetning þeirra glatist ekki og til að miðla upplýsingum um þau til samfélagsins. Félag eldri borgara á Fljótsdalshéraði sinnir skráningunni og notar til þess örnefnaskráningarveftól Landmælinga Íslands og örnefnalýsingar jarða frá nafnfræðisviði Árnastofnunar.

Föstudaginn 19. október komu þær Rannveig L. Benediktsdóttir og Bjarney Guðbjörnsdóttir, starfsmenn Landmælinga Íslands, til Egilsstaða og héldu námskeið fyrir skráningaraðilana og fór skráningin vel af stað. Svo mikill áhugi er á svæðinu fyrir verkefninu að í lok dags var boðað til fundar í Hlymsdölum með þeim sem hafa áhuga á að skrá örnefni á jörðum sínum á myndir í stað þess að skrá í örnefnaskráningarveftólið. Stofnunin tekur síðan við myndunum og skráir örnefnin inn í örnefnagrunn Landmælinga Íslands.