- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Þann 11. ágúst var haldið uppá 100 ára afmæli Eiríksstaðakirkju á Jökuldal með hátíðamessu. Eiríksstaðkirkja er lítil kirkja sem tekur um 40 manns í sæti, hún er friðuð og elsta steinbygging á Efra Jökuldal og önnur elsta steinkirkja á Austurlandi.
Biskup Íslandi frú Agnes M. Sigurðardóttir predikaði við athöfnina en séra Lára G. Oddsdóttir þjónaði fyrir altari. Organisti var Jón Ólafur Sigurðsson. Til kirkju mættu fyrrverandi og núverandi sóknarbörn, velunnarar kirkjunnar ásamt nokkrum gestum. Meðal gesta voru Aðalsteinn Maríusson múrarameistari en hann hefur haft veg og vanda að öllum viðgerðum á múrverki frá 1994 og Snorri Guðvarðarson málarameistari sem hefur séð um listmálun og viðgerð á gluggum.
Að lokinni messu var gestum boði að ganga í kirkjugarðinn sem búið er að lagfæra. Þar eru 31 grafir, allar þekktar og þau leiði sem ekki eru með kross hafa verið merkt með steinum úr Jökuldalsheiði. Sóknarnefnd hyggst setja upp upplýsingaskilti um garðinn og sögu kirkjunnar í kirkjugarðinn.
Kirkjugestum var boðið til málsverðar á eftir á Hreindýraslóðum á Skjöldólfsstöðum, þar sem Aðalsteinn og Snorri fóru yfir þau verk sem þeir hafa unnið, Sigvaldi H. Ragnarsson, formaður sóknarnefndar, fór yfir sögu kirkjugarðsins og að endingu las Dagný Pálsdóttir frá Aðalbóli ljóð um Sigurð smala eftir Benedikt frá Hofteigi en Sigurður smali hvílir í Eiríksstaðakirkjugarði.