Egilsstaðaskóli og umhverfissvið Fljótsdalshéraðs í samstarfi

Grindverkin sem nemendurnir skreyta mynda skjól fyrir plöntur sem eiga eftir að vaxa upp og verða fa…
Grindverkin sem nemendurnir skreyta mynda skjól fyrir plöntur sem eiga eftir að vaxa upp og verða falleg garðtré.

Merki heilsueflandi samfélags  Sú hefð hefur skapast í Egilsstaðaskóla að nemendur 7.bekkjar gera grindverk sem nýtt eru til að skreyta leiðina úr skólanum yfir í íþróttahúsið.
Nú eru þessu grindverk orðin 5 talsins og í hverju hólfi hefur verið plantað garðtré sem á eftir að vaxa upp og fylgja nemendum um ókomna tíð. Verkefnið hefur verið unnið í samvinnu við umhverfissvið Fljótsdalshéraðs sem sér um að planta tré hverju sinni og setja niður undirstöður fyrir grindverkið. Nemendur vinna síðan hver og einn eina spýtu í grindverkið.

Í ár var svo komið að okkur þótti ástæða til að endurvinna fyrsta grindverkið, enda orðið 5 ára gamalt og farið að láta á sjá. Hópurinn fór því galvaskur og skrúfaði niður spýturnar sem fyrir voru og grunnuðu upp á nýtt til að endurvinna í grindverkið.

Þema ársins var flóra Íslands og valdi hver nemandi sér eina plöntu úr flóru Íslands og var nafnið ásamt teikningu af plöntunni sett upp á spýtu. Þarna fengu nemendur tækifæri til að skoða hvaða plöntur tilheyra flóru Íslands og kynna sér einstaka plöntur og plöntuhluta nánar. Spýturnar voru síðan skrúfaðar upp á ný í góða veðrinu í síðustu viku.

Hægt er að skoðað listaverkin sem eru meðfram göngustígnum frá íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum upp að Egilsstaðaskóla.