Egilsstaðaflugvöllur arðbærastur

Innanríkisráðuneytið sendi frá sér skýrslu í gær um þjóðhagslegan ábata af áætlunarflugi innanlands. Skýrslan var kynnt í morgun í Iðnó. Í henni kemur fram að arðbærasti flugvöllurinn er Egilsstaðaflugvöllur en þjóðhagslegur ábati af flugi á þann völl nemur tæpum 52 milljörðum króna á tímabilinu 2013-2053.

Í skýrslunni kemur fram að fjórir flugvellir og flugleiðir eru þjóðhagslega hagkvæmir/ar:
• Egilsstaðaflugvöllur og flugleiðin Egilsstaðir – Reykjavík.
• Akureyrarflugvöllur og flugleiðin Akureyri – Reykjavík.
• Ísafjarðarflugvöllur og flugleiðin Ísafjörður – Reykjavík.
• Húsavíkurflugvöllur og flugleiðin Húsavík – Reykjavík.
Tveir flugvellir eru hagkvæmir en eru þó rétt við núllið:
• Bíldudalsflugvöllur og flugleiðin Bíldudalur – Reykjavík.
• Grímseyjarflugvöllur og flugleiðin Grímsey – Akureyri.
Aðrir flugvellir og flugleiðir eru þjóðhagslega óhagkvæmir/ar:
• Hornafjarðarflugvöllur og flugleiðin Hornafjörður - Reykjavík.
• Vestmannaeyjaflugvöllur og flugleiðin Vestmannaeyjar – Reykjavík.
• Þórshafnarflugvöllur og flugleiðin Þórshöfn – Akureyri.
• Vopnafjarðarflugvöllur og flugleiðin Vopnafjörður – Akureyri.
• Gjögurflugvöllur og flugleiðin Gjögur – Reykjavík.

Í skýrslunni segir að markmið úttektarinnar sé að skoða áætlunarflug innanlands út frá hagrænum og samfélagslegum sjónarhornum. Tilgangurinn sé annars vegar að kanna hagkvæmni innanlandsflugvalla og áætlunarflugsins og hins vegar að svara því hvaða áhrif áætlunarflugið hefur á búsetugæði á þeim svæðum sem í dag njóta áætlunarflugs. Í þessu felist ... að reyna að varpa ljósi á það hverjar samfélagslegar afleiðingar yrðu fyrir íbúa á nærsvæði flugvallar ef áætlunarflugi þangað yrði hætt. Samfélagslegar afleiðingar séu skoðaðar með hliðsjón af eftirfarandi þáttum: Heilsu og öryggi, möguleikum til menntunar, atvinnu og atvinnutækifæra, aðgengi að þjónustu, aðgengi að menningu og afþreyingu, og fjölskyldutengslum.

Ennfremur segir að töluverður munur sé á notkun karla og kvenna á innanlandsflugi, Fleiri konur fljúga og greiða oftast sjálfar fyrir flugið en karlar noti flug mun oftar og þeir greiða síður flugið sjálfir. Af þeim sem ferðast á vegum fyrirtækja eru 82% karlar. Einnig kemur fram að aðfluttir noti flugið fremur en innfæddir og að erlendir ferðamenn noti flugið lítið.
Skýrsluna í heild má sjá hér.