Ég kæra sendi kveðju

Héraðsskjalasafn Austfirðinga heldur úti vefsíðu og á henni má finna ýmislegt sér til fróðleiks og skemmtunar. Jólasýning síðunnar er að þessu sinni helguð gömlum póstkortum úr eigu Ljósmyndsafns Austurlands.

Starfsmaður safnsins, Arndís Þorvaldsdóttir, valdi til sýningar kort frá fyrstu áratugum 20. aldar, þau eru flest erlend.

Í kynningu með sýningunni skrifar hún:

„Ekki fer á milli mála að töluvert var um að fólk sendi, á þessum tíma, hvert öðru kveðjur á póstkorti og sýna kortin sem eru í sýningunni að tilgangurinn var margvíslegur. Gjarnan var valið bréfspjald með fallegri mynd þegar verið var að senda árnaðaróskir í tilefni tímamóta, en aftur á móti eitthvað spélegt þegar ætlunin var að laða fram bros. Þá voru samskipti kynjana með rómantísku ívafi vinsælt myndefni á kortunum. Slík kort eru drjúgur hluti sýningarinnar nú og koma þau flest úr póstkortasafni Sigurðar Vigfússonar. Einnig er á sýningunni syrpa af kortum sem sýna framvindu ullarvinnslu í Skotlandi fyrr á tíð allt frá rúningi til pilsklæddra Hálendinga. Kortin eru gerð eftir málverkum listakonunnar Jenny Richardson og gefin út af Scottish Tartans Museum.
Komu þau til safnsins frá Jónasi Jónassyni frá Kolmúla.
Með jólakveðju og ósk um að þið njótið vel.
Arndís Þorvaldsdóttir"