- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Ný sýning verður opnuð í Safnahúsinu á Egilsstöðum í dag klukkan 17:30. Sýningin, sem ber yfirskriftina Eftirlýstir Íslendingar á 17. og 18. öld. Við opnunina segir Daníel G. Daníelsson sagnfræðingur frá rannsóknum sínum á efninu. Sýningin samanstendur af 30 teikningum nemenda á teiknibraut við Myndlistaskólann í Reykjavík. Teikningarnar voru unnar upp úr lýsingum á eftirlýstu fólki sem birtust í Alþingisbókum Íslands frá miðri 17. öld og undir lok 18. aldar.
Á þessum tíma voru ekki aðrar leiðir færar til að lýsa eftir strokufólki og sakamönnum en að setja saman kjarnyrtar lýsingar á útliti þeirra sem síðan bárust manna á milli. Nú hafa nemar Myndlistarskólans í Reykjavík dregið upp myndir af þessu misindisfólki fyrri tíma og þannig opnað glugga að þessum samfélagskima fortíðarinnar.
Verkefnið er samstarfsverkefni skólans og Daníels G. Daníelssonar sagnfræðings og er sprottið upp úr rannsóknum Daníels fyrir verkefnið ,,Fötlun fyrir tíma fötlunar“. Við opnunina mun Daníel fjalla um um rannsóknir sínar og meðal annars draga fram í dagsljósið nokkra eftirlýsta Austfirðinga.
Viðburðurinn er samstarfsverkefni Minjasafns Austurlands, Bókasafns Héraðsbúa og Héraðsskjalasafns Austfirðinga og er styrkt af Alcoa Fjarðaáli.
Aðgangur ókeypis, allir velkomnir.