Dyrfjallaverkefnið fékk Umhverfisverðlaunin

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, veitti verðlaunin í lok  Ferðamálaþing í …
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, veitti verðlaunin í lok Ferðamálaþing í Hörpu. Á myndinni eru talið frá vinstri: Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri; Hjörleifur Finnsson, verkefnisstjóri í umhverfismálum hjá Ferðamálastofu; Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Fljótsdalshérðas; Jón Þórðarson, sveitarstjóri í Borgarfjarðarhreppi; Guðrún Dóra Brynjólfsdóttir, sérfræðingur í umhverfismálum hjá Ferðamálastofu og Ragnheiður Elín. Myndin er tekin af vef Ferðamálastofu.

Verkefnið Dyrfjöll – Stórurð, gönguparadís hlaut í gær, 30. nóvember, Umhverfisverðlaun Ferðamálstofu fyrir árið 2016. Verðlaunin voru afhent á Ferðamálaþingi sem haldið var í Hörpu. Verkefnið var unnið í samstarfi tveggja sveitarfélaga, Borgarfjarðarhrepps og Fljótsdalshéraðs, og er dæmi um það hvernig samvinna getur leitt til góðra verka, eins og sagt er í frétt frá Ferðamálastofu.

Í fréttatilkynningu frá Ferðamálastofu segir einnig:
Bætt aðgengi og aðstaða
Verkefnið felst í að bæta aðgengi að og styrkja göngusvæði Stórurðar og Dyrfjalla með stikun og lagfæringu göngustíga, merkinga, uppsetningu upplýsingaskilta og –korta og síðast enn ekki síst byggingu þjónustuhúss.
Þjónustuhúsið bætir ekki aðeins úr margfrægum skorti á salernisaðstöðu heldur virkar það sem upphafsreitur eða gátt inn á svæði sem áður bjó ekki yfir skýrum upphafsstað eða útgangspunkti.

Frumleg og stílhrein hönnun
Hönnun arkitektsins Eirik Rönning Anderssen er í senn frumleg og stílhrein og nýtir sér sérstöðu og svip Dyrfjalla. Verkefnið styrkir sjálfbæra ferðamennsku gönguferða á ferðmannasvæði sem þolir meiri nýtingu, eykur öryggi ferðamanna, eflir lýðheilsu, stuðlar að náttúruvernd og eykur staðarstolt heimamanna.

Styrkir alla þrjá helstu þætti sjálfbærrar þróunar
Verkefnið er því til þess fallið að styrkja alla þrjá helstu þætti sjálfbærrar þróunar:
• - hinn efnahagslega með því að draga að fleiri ferðamenn og fá þá til að dvelja lengur,
• - hinn náttúrulega með því flytja stíga af blautum svæðum og upplýsingum til ferðamanna og
• - hinn félagslega með því að draga fram sérstöðu svæðisins og auka staðarstolt heimamanna.

Veitt árlega frá árinu 1995
Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu hafa verið veitt árlega frá árinu 1995 og var þetta því í 22. sinn sem þau voru afhent. Undanfarin ár hefur sá háttur verið að á að velja verðlaunahafa úr tilnefningum sem borist hafa Ferðamálastofu. Hafa ýmis fyrirtæki í ferðaþjónustu, sem skarað hafa fram úr í umhverfismálum í starfi sínu, hlotið verðlaunin.
Fyrirmyndarverkefni styrkt af Framkvæmdasjóði
Í ár var breytt til og verðlaunin veitt fyrir verkefni en ekki til fyrirtækja. Nánar til tekið, verkefni sem hlotið hafa styrk úr Framkvæmdasjóði ferðmannastaða á tímabilinu 2014-2016 og eru til fyrirmyndar. Það þýðir að verkefninu sé lokið, reglum framkvæmdasjóðsins fylgt og það hafi verið í samræmi umhverfistefnu Ferðamálstofu og áherslur Framkvæmdasjóðsins um sjálfbæra þróun og gæði hönnunar og skipulags.
--------------------------------------------------------------------------
Um verðlaunagripinn:
Verðlaunagripurinn ber heitið ,,Sjónarhóll“ og eru höfundar hans Jón Helgi Hólmgeirsson og Védís Pálsdóttir. Hugmyndin bakvið gripinn er hvernig hægt er að upplifa náttúruna frá mismunandi sjónarhornum og þá einstöku upplifun hvers og eins að nálgast áfangastað.
Látúnstangir mynda þrívíðan hól úr uppréttum hæðarlínum á meðan línuteikningar bæta við hólinn hlíðum og árfarvegum. Hóllinn varpast í speglum sem myndar nýjar víddir eftir því hvaðan á er litið. Sjónarhóll er í senn náttúran, samspilið við hið manngerða og sjónarhornið sem upphefur upplifunina.

Þá má bæta við að Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs segir á Facebooksíðu sinni, „Verð að viðurkenna að ég hef tekið þátt í leiðinlegri uppákomum. Okkur er það bæði ánægja og heiður að hafa hlotnast þessi viðurkenning og eiga allir sem að þessu skemmtilega verkefni hafa komið miklar þakkir skilið. Held ég að á engan sé hallað þó að ég taki þar sérstaklega út fyrir sviga atvinnu-, menningar- og íþróttafulltrúa Fljótsdalshérað, Óðinn Gunnar Óðinsson, sem hefur leitt þetta verkefni af stakri snilld.“