Dúndrandi bæjarhátíð og miðbæjarfjör á Ormsteiti

Laugardagurinn 22. ágúst er pakkaður með dagskrá frá morgni til kvölds á Ormsteiti. Klukkan 09.00 hefst VODAFONE OPEN golfmótið á Ekkjufellsvelli í Fellabæ. Ræst er út kl 09.00 en skráning og upplýsingar má finna á www.golf.is/gfh

Æfing fyrir söngvarakeppni barna hefst kl. 10.00 í Kornskálanum við Sláturhúsinu.

Kaffi Egilsstaðir verður með tilboð á pizzasneiðum milli kl. 1100 og 16.00.

Klukkan 11.00 hefst rathlaup í Selskógi og er það Í samstarfi við Rathlaupsfélagið Heklu. Tímataka verður frá kl 11.00 -14.00. Hægt verður að mæta einhvern tímann á þeim tíma og hlaupa hring í skóginum (1 km eða 3 km). Hægt verður að velja milli tveggja brauta. Frekari upplýsingar um hvað rathlaup er, má finna á heimasíðunni www.rathlaup.is

Opinn dagur og kynning á Skotfélagi Austurlands verður milli 13.00 og 17.00 á svæði félagsins að Þuríðarstöðum. Formleg vígsla og opnun á brú fyrir Eyvindará yfir á skotsvæðið verður kl. 13.00. Klukkan 13.30 verður síðan stutt kynning á starfsemi félagsins og deildum þess. Klukkan 14.00 er boðið upp á vörukynningu frá Veiðiflugunni og Veiðihúsinu Sakka. Kynntar verða helstu vörur s.s. Sako Benelli og flautur. Klukkan 15.00 verður bogfimi- og leirdúfukynning. Áhugasamir geta þar reynt sig. Holulæri og veitingar að hætti SKAUST verða síðan í boði milli kl. 16.00 og 17.00.

Héraðsmarkaðurinn heldur áfram á planinu við Nettó milli kl. 12.00 og 17.00.

Kökukeppni Ormsteitis hefst kl. 12.00. Skila á kökunum á Kleinuplaninu, dómnefnd velur fallegustu, bragðbestu og frumlegustu kökurnar í ár. Atkvæði gesta gildir til helminga á móti niðurstöðu dómnefndar. Úrslit eru síðan kynnt kl 14.00 og þá gefst gestum kostur á að bragða á afrakstrinum.

Bílaklúbburinn START verður með glæsilega tækjasýningu milli 11.00 og 16.00 við Sláturhúsið. Mikill fjöldi bíla og tækja sem verður hægt að berja augum þar.

Klukkan 14.00 hefst söngvarakeppni barna á sviðinu við Kornskálann, við Sláturhúsið. Leikhópurinn Lotta kynnir söngvarakeppnina og skemmtir krökkunum.

Húsdýr og húllumhæ á vegum bænda af Austurlandi verður hægt að sjá og upplifa á svæðinu sunnan við Skattstofuna (á móti tjaldstæðinu á Egilsstöðum).

Höttur og Ægir eigast við í 2. Deild karla í fótbolta milli kl. 14.00 og 16:00 á Vilhjálmsvelli.

Kaffihlaðborð verður á Kaffi Egilsstöðum milli kl. 14.00 og 17.00.

Klukkan 17.00 hefst Grettisstund í Sláturhúsinu. Einar Kárason, rithöfundur, og Elfar Logi Hannesson, leikari, leiða saman hesta sína og leika með eina þekktustu Íslendingasöguna, Grettis sögu Ásmundarsonar. Einar Kárason hefur leik og fjallar um Gretti á sinn magnaða hátt en Einar er mikll sögumaður sem unun er að hlýða á. Að Einars þætti loknum mun Elfar Logi Hannesson sýna einleikinn Grettir sem hefur sannarlega slegið í gegn og verið sýndur víða. Miðaverð kr. 3.000.

Hreindýraveislan fræga hefst kl. 19.00 í Kornskálanum við Sláturhúsið. Matreiðslumaður Ormsteitis síðustu tveggja ára, Kolbrún Hólm, snýr aftur og ætlar að elda eins og henni einni er lagið. Villibráðarsúpa í forrétt og grillað hreindýr, hreindýrabollur og salat úr Vallanesi og nýuppteknar kartöflur. Veislustjórar verða lærisveinarnir Magni Ásgeirsson og Ásgrímur Ingi Arngrímsson og sjá þeir um að halda uppi fjörinu. Verð er það sama og í fyrra kr. 4.990. Ferðaskrifstofan VITA gefur ferðavinning sem eru 2 flugsæti í beinu flugi milli Egilsstaða og Dublin 12. - 15. nóvember 2015. Miðasala á hreindýraveisluna á fer fram í markaðstjaldinu og við innganginn.

Nostalgíuballið hefst síðan í Valaskjálf kl. 23.00. Hljómsveitin Á móti sól mætir og tryllir bæjarbúa og gesti með sínu alræmda stuði. Aðgangseyrir kr. 3.000.