- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Á blaðamannafundi á Reyðarfirði í dag gerðu bæjarstjórar Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs grein fyrir samstarfi sveitarfélaganna varðandi þjónustu við olíurannsóknir í nágrenni við Ísland.
Þar var kynnt fagleg úttekt á staðarvali fyrir þjónustumiðstöð vegna fyrirhugaðrar olíuleitar og vinnslu á Drekasvæðinu sem sýnir að Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað standa best að vígi. Niðurstaðan staðfestir sameiginleg sóknarfæri sveitarfélaganna í atvinnuþróun og nýsköpun.
Það var verkfræðistofan Mannvit sem gerði staðarvalsmatið sem nær til Vestfjarða, Norðurlands og Austurlands og eru fimm matsþættir lagðir til grundvallar niðurstöðunni. Matsskýrslan á staðarvali fyrir þjónustumiðstöðina kom út í janúar 2013. Hún var unnin á vegum Mannvits og hafa Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað ekki birtingarrétt á niðurstöðum hennar í heild sinni.
Miklir möguleikar eru til staðar í tengslum við fyrirhugaða olíuleit á Drekasvæðinu en teygja sig þó víðar og inn á mun fleiri svið samfélagsins.
Fréttatilkynningu frá fundinum í dag má sjá hér en nánari upplýsingar veita bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Páll Björgvin Guðmundsson og Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs.
Myndin sem fylgir fréttinni er frá desember 2012 þegar bæjarstjórarnir undirrituðu samning sveitarfélaganna um samstarf vegna staðarvals á þjónustumiðstöð fyrir fyrirhugaða olíuleit á Drekasvæðinu.