Dregið í gönguleikjum Ferðafélagsins

Stapavík er ein af Perlum Fljótsdalshéraðs
Stapavík er ein af Perlum Fljótsdalshéraðs

Ferðafélag Fljótsdalshéraðs stendur hvert sumar fyrir gönguleik í tengslum við Perlur Fljótsdalshéraðs, merktar gönguleiðir á Héraði og í fyrra bætti félagið svo Heiðarbýlunum við.

Perlurnar eru, eins og flestir vita, 28 gönguleiðir í sveitarfélögunum Fljótsdalshéraði og Fljótsdalshreppi. Perlur þessar eru af ýmsum toga, t.d. fossar og vötn, gil og gljúfur, smáhellar og víkur en flestar eru þær fjöll og fjallstoppar með útsýni til allra átta. Við hverja perlu er hólkur sem inniheldur upplýsingar um staðinn ásamt gestabók og stimpli. Með því að stimpla í perlukortið, sem fæst á nokkrum stöðum, er koma á áfangastað staðfest. Þegar kortið er fullt, en í það er pláss fyrir níu stimpla, er hægt að skila því inn á skrifstofu Ferðafélagsins eða í Egilsstaðastofu.

Nú hafa Heiðarbýlin bæst við gönguflóruna, en Ferðafélag Fljótsdalshéraðs og Kaupvangur menningar- og fræðasetur Vopnfirðinga hafa sameinast um að byggja upp menningartengda ferðaþjónustu á Jökuldalsheiðinni og heiðunum þar í kring. Hjá hverju býli er hólkur sem inniheldur upplýsingar um býlið, ábúendur og sögur tengdar því, gestabók og stimpill. Hægt er að stimpla tíu sinnum í heiðarbýlakortið og skila því inn til Ferðafélagsins til að freista gæfunnar þegar það er orðið fullt.

Dregið verður úr leikjunum fimmtudaginn 20. september klukkan 20 á skrifstofu Ferðafélagsins, Tjarnarási 8 á Egilsstöðum, en skila þurfti kortunum inn fyrir 15. september.

Á heimasíðu Ferðafélagsins  er hægt að skoða upplýsingar um Perlur Fljótsdalshéraðs, Heiðarbýlin og ýmislegt fleira.