Laugardaginn 12. janúar var haldið yfirgripsmikið málþing á Hallormsstað í tengslum við aðalskipulagsgerð Fljótsdalshéraðs. Sjónum var sérstaklega beint að sérstöðu og framtíðarþróun í drefibýlinu. Flutt voru 10 erindi á málþinginu og er hægt að nálgast þau öll á heimasíðu sveitarfélagsins.
Yfirskrift málþingsins var: Hvað varð um birkivínið? um sérstöðu og framtíðarþróun í sveitum Fljótsdalshéraðs.
Skemmst er frá að segja að gátunni um birkivínið var uppljóstrað og ýmsu fleiru í leiðinni. Einkum var fjallað um mikilvægi stefnumótunar í aðalskipulagi og í því ljósi frístundabyggð, skógrækt og landbúnað. Miklar breytingar hafa orðið undanfarin ár hvað varðar þessa þrjá málaflokka og því þörf á að bjóða upp á umræður íbúa og landeiganda. Eftir fjölbreytt efnistök fyrirlestra voru umræður í tveimur umferðum og munu skilaboð í umræðunum verða nýtt við aðalskipulagsvinnuna.
Mál manna var að fyrirlestrarnir væri afar áhugaverðir. Undirstrikað var mikilvægi aðalskipulags sem er lögbundin stefnumótun sveitarfélaga og er ákaflega öflugt tæki. Hvatt var til þess að sveitarstjórnarmenn væri óhræddir við að setja sér ákveðna stefnu varðandi landnotkun og takmarkanir sem við eiga en einnig að framfylgja stefnunni. Því til stuðnings voru sýnd nokkur dæmi um afleiðingar lélegs skipulags frístundabyggða; sem getur leitt til ólestrar varðandi frárennsli, vatnsvernd í ólagi og óþarfa aukins kostnaðar fyrir sveitarfélagið.
Fjallað var um reynslu Hrunamannahrepps af stefnumótun í aðalskipulagi, frístundabyggð þróun og afleiðingar, um skógrækt í skipulagi sveitarfélaga, um náttúruvernd, um bændur og framtíðina, um stóra leikendur í landbúnaðarlandi og mat úr héraði matarkistuna Skagafjörð. Fyrirlestrar voru 10 talsins. Nálgast má erindi þeirra hér.