Dansspor í vinnuskólanum

Fyrir stuttu var stofnaður danshópur á Fljótsdalshéraði. Um er að ræða danshópinn 700, sem skipaður er nemendum Vinnuskóla Fljótsdalshéraðs. Dansararnir eru á aldrinum 14-16 ára, og gafst þeim kostur á að taka þátt í listahópi, í staðinn fyrir að sinna hefðbundinni útivinnu. Umsjónarmaður hópsins er Emelía Antonsdóttir Crivello.

Hópurinn mætir alla virka daga og æfir í íþróttahúsinu á Egilsstöðum. Dagurinn hefst á danstíma þar sem meðlimir hópsins læra danstækni og dansrútínur. Í framhaldi af danstímanum tekur við skapandi starf þar sem æfð eru ýmis konar atriði ásamt æfingum í spuna og að koma fram. Í sumar mun hópurinn koma fram við ýmis tilefni.

Fyrstu viku vinnuskólans tók hópurinn upp dansmyndband, þar sem hver meðlimur hópsins samdi sjálfur sín eigin spor. Myndbandið má sjá hér:
http://www.youtube.com/watch?v=gUlQLOKInJc  Í myndbandið og á myndina með fréttinni vantar Steinunni Bjarkey Guðmundsdóttur og Heiðdísi Sigurjónsdóttur. Dansararnir eru annars kynntir í myndbandinu.

Einnig er hægt fylgjast með starfsemi hópsins á facebook: www.facebook.com/sjonullnull