Dagur Tónlistarskóla Austur-Héraðs

Miðvikudagurinn 2. maí er Dagur tónlistarskóla Austur-Héraðs og að því tilefni verður hann haldinn hátíðlegur með tónleikum á Eiðum. Þar koma fram kórar skólans svo og strengjasveit.

Hér er annars vegar um að ræða krakkakórinn svo kallaða og hins vegar skólakórinn sem er fyrir eldri nemendur skólans. Þá leikur einnig strengjasveit skólans, en hún hélt mjög vel lukkaða tónleika eftir strengjanámskeið í febrúar á Eiðum. Tónleikarnir hefjast kl. 18.00. Allir eru velkomnir.

Það var fyrir réttum þremur árum, eða 2. maí 2004, sem haldin var hátíð til heiðurs Magnúsi Magnússyni sem þá var að láta af störfum sem skólastjóri Tónlistarskóla Austur-Héraðs.

Í ávarpi sem Eiríkur B. Björgvinsson, bæjarstjóri, flutti í Egilsstaðakirkju að því tilefni upplýsti hann að ákveðið hefði verið að 2. maí yrði framvegis „Dagur Tónlistarskóla Austur-Héraðs“.

Það hafði lengi verið ósk Magnúsar Magnússonar að gera starf tónlistarskólans sýnilegra í samfélaginu með því að helga skólanum sérstakan dag ár hvert. Það var síðan hugmynd Keith Reed að velja til þess afmælisdag Magnúsar. En Magnús var þá sá starfsmaður sveitarfélagsins (Austur-Héraðs) sem átti að baki lengstan starfsaldur, en hann starfaði alls í 33 ár við tónlistarskóla á Héraði.  

Markmiðið með „Degi Tónlistarskóla Austur-Héraðs" er að kynna og vekja athygli á starfsemi skólans og draga fram gildi skólans fyrir líf og störf í sveitarfélaginu.