- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Opin vinnustofa verður hjá Íris Lind og Lóu í Sláturhúsinu á Degi Myndlistar þann 8. október frá klukkan 14:00 til 17:00.
Um Dag Myndlistar
Undanfarin ár hefur Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM) staðið fyrir Degi Myndlistar þar sem gestum og gangandi er boðið að heimsækja listamenn á vinnustofur þeirra. Þessi kynning á myndlistarmönnum hefur gefist mjög vel og hefur Dagur Myndlistar verið árviss viðburður í sífelldri þróun. Árið 2010 var verkefnið sett í fastari ramma og umfangið aukið.
Í ár verður tekin upp sú breyting að dagurinn verður ekki lengur aðeins einn dagur, heldur heill mánuður, þar sem vakin er athygli á starfi myndlistarmannsins. Dagur Myndlistar verður því í ár, Dagur Myndlistar – allan október 2016. Með þessu móti vonumst við til að vekja enn frekar athygli á því sem Dagur Myndlistar stendur fyrir, um leið og við aukum sýnileika þeirra viðburða sem haldnir eru í tengslum við daginn. Endilega fylgist vel með þegar nær dregur.
Dagurinn er hugsaður sem vitundarátak með það að markmiði að auka þekkingu landsmanna á starfi íslenskra myndlistarmanna. Á Íslandi starfar fjöldi listamanna og erfitt er að leggja fingur á hversu margir þeir eru en til viðmiðunar má benda á að félagsmenn SÍM eru yfir 700 talsins. Flestir myndlistarmenn búa yfir háskólamenntun en margir vinna jafnframt við fleiri störf en bara myndlistina til að fleyta fram lífið. Á Degi Myndlistar gefst því fólki tækifæri til að skyggnast inní þetta flókna líf myndlistarmannsins með því að kom í heimsókn á vinnustofur þeirra. Eins er hægt að nálgast þann heim úr hæfilegri fjarlægð með aðstoð internetsins hér, þar sem líta má á stutt innlit á vinnustofur íslenskra myndlistarmanna.
Í kjölfar Dags Myndlistar býður SÍM öllum grunn- og framhaldsskólum landsins upp á kynningu myndlistarmanna í skólunum þeim að kostnaðarlausu. Markmið þeirra er að kynna starf myndlistarmannsins fyrir nemendum og auka þannig skilning á myndlist sem starfsgrein. Þessar kynningar hafa farið einstaklega vel fram og hafa margir skólar gert þær að árlegum viðburði innan skólastarfsins. Sífellt fleiri skólar skrá sig með hverju ári og er áhuginn mikill.