Dagur leikskólans á Fljótsdalshéraði

Leikskólabörn heimsóttu bæjarskrifstofur Fljótsdalshéraðs á leikskóladeginum og ræddu málin við bæja…
Leikskólabörn heimsóttu bæjarskrifstofur Fljótsdalshéraðs á leikskóladeginum og ræddu málin við bæjarstjóra.

Dagur leikskólans er 6. febrúar ár hvert. Þar sem þann dag bar upp á laugardag í þetta sinn var dagsins minnst í leikskólum Fljótsdalshéraðs föstudaginn  5. febrúar.

Í Hádegishöfða var boðið upp á kynningu á starfinu milli kl. 9 og 10 þar sem foreldrar og börn fóru saman í gegnum ákveðin verkefni sem eru hluti af daglegu skólastarfi.

Í Tjarnarskógi er venja að nemendur noti daginn til að heimsækja stofnanir í samfélaginu og fór hópur í heimsókn í Egilsstaðaskóla, annar hópur fór í menntaskólann og þriðji hópurinn heimsótti bæjarskrifstofurnar og fræddist um starfsemi bæjarfélagsins.

Á bæjarskrifstofunni tóku bæjarstjóri og fræðslufulltrúi á móti hópnum. Börnin voru dugleg að spyrja um eitt og annað auk þess að koma með ábendingar um það sem þau töldu að betur mætti fara í sveitarfélaginu sínu. Einkum bentu þau á atriði sem varða umferðaröryggi og umgengni enda eru þau talsvert á gangi um Egilsstaði. Þau báðu sérstaklega um að foreldrar væri hvattir til að ganga í skólann með börnunum sínum, það sé bæði hollara og svo verði mikil mengun í góðum veðrum af öllum bílunum!