Dagur íslenskrar tungu í dag

Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur í dag, 16. nóvember. Dagsins verður minnst með ýmsum hætti í skólum og stofnunum sveitarfélagsins. Þannig munu til dæmis allir nemendur og starfsfólk leikskólans Skógarlandi hittast á sal og syngja saman vel valda texta á kjarnyrtri íslensku. Tónlistarskólinn á Egilsstöðum heldur tónleika í Egilsstaðakirkju í dag kl 18:00. Á tónleikunum verður eingöngu flutt íslensk tónlist, sungin og leikin, með áherslu á tengsl ljóðlistar og tónlistar. Efnisskráin spannar efni, allt frá gömlum íslenskum tvísöngslögum til  tónlistar núlifandi tónskálda. Frítt er inn á tónleikana og allir að sjálfsögðu velkomnir.

Þá verður boðið upp á spil og spjall í Hlymsdölum milli kl. 16 og 18, og eru þá íbúar Fljótsdalshéraðs af erlendum uppruna sérstaklega velkomnir. Það eru Þekkingarnet Austurlands, Rauði krossinn á Héraði og Soroptimistasystur auk Fljótsdalshéraðs sem standa að samkomunni.

Að tillögu menntamálaráðherra ákvað ríkisstjórn Íslands, haustið 1995, að 16. nóvember ár hvert, sem er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, yrði dagur íslenskrar tungu. Í framhaldi af því hefur menntamálaráðuneytið árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það. Með því móti beinist athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu.