Dagur barnsins á Fljótsdalshéraði á sunnudaginn
Dagur barnsins er haldinn sunnudaginn 25. maí að tilstuðlan ríkisstjórnar Íslands. Yfirskrift dagsins í ár er gleði og samvinna. Fljótsdalshérað hvetur foreldra og forráðamenn til þess að halda upp á daginn með því að eiga góða samverustund með börnum sínum.Fjölskyldu- og frístundasvið Fljótsdalshéraðs vekur athygli á því að á Fljótsdalshéraði hefur verið frítt í sund fyrir börn á leik- og grunskólaaldri allt síðast liðið ár. Í tilefni af Degi barnsins vill sveitarfélagið gera enn betur og býður öllu fjölskyldufólki frían aðgang að sundlauginni þann dag.
Jafnframt býður Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs öllum fjölskyldum frítt á ævintýrasýningu í Sláturhúsinu frá kl. 14:00 – 18:00. Sýningin er samvinnuverkefni Menningarmiðstöðvar og Listahátíðar Reykjavíkur.
Þá vill Fljótsdalshérað hvetja foreldra og forráðamenn til að taka sér tíma og eiga góða samverustund með börnunum sínum á sunnudaginn, t.d. til útivistar.
Nálægð við náttúruna býður upp á óþrjótandi möguleika til afþreyingar og útivistar.
Áhugaverðir staðir eru fjölmargir í sveitarfélaginu s.s.
• Hallormsstaðaskógur með viðkomu í Atlavík eða Stekkjarvík (neðan við þjóðveg á milli Freyshóla og Hafursár) en þar er góð grillaðstaða með borðum og bekkjum.
• Trjásafnið í Hallormsstað
• Útivistarsvæðið í Selskógi þar sem eru góðir göngustígar og leiktæki
• Fardagafoss
• Stórurð
• Hjóla og göngustígar vítt og breytt um Egilsstaði og yfir í Fellabæ
• Ýmsar gönguleiðir. Kort yfir gönguleiðir er hægt að nálgast á heimasíðu Fljótsdalshéraðs á slóðinni www.fljotsdalsherad.is – Ferðamenn – Kort – Gönguleiðir.